„Er að breytast í skáldin sem ég gerði grín að“

Fellbæingurinn Björgvin Gunnarsson, eða Lubbi klettaskáld, stefnir á að gefa út sína sjöttu ljóðabók fyrir þessi jól. Bókin ber heitið „Svolítið sóðalegt hjarta.“ Hún fjallar um yrkisefni sem fá ljóðskáld hafa áður tekist á við, ást og ástarsorg!

„Ég fór bæði í andlega lægð, þar sem ég gekk meðal annars í gegnum sambandsslit og fékk ritstíflu. Það leið þó nokkur tími án þess að ég skrifaði ljóð en ég byrjaði aftur fyrir um tveimur árum og þá brast stífla,“ segir skáldið.

Hann sendi síðast frá sér ljóðabók árið 2012. „Ég lét gera 40 eintök og útgáfan var einföld og ódýr. Ég seldi hana fyrir austan um jólin og ágóðinn dugði mér þannig ég gæti keypt mér bensín og komist aftur suður,“ rifjar hann upp.

Gerði grín að alvarlegum skáldum

Björgvin gaf út sína fyrstu ljóðabók aðeins 18 ára gamall árið 1998. „Pabbi gaf út ljóðabók árið 1970 undir listamannsnafninu Gunnarr Runólfr og ég átti mér þann draum að feta í fótspor hans. Hann sagði mér að allar ljóðabækur fyrri tíma hefðu annað hvort heitið Ljóðmæli eða Kvæðakver. Hans bók hélt Ljóðmæli og því hét mín Kvæða hver?

Ég gerði grín að skáldum fyrir að vera alvarleg og óskiljanleg. Ég sagðist semja ljóð fyrir fólk sem þoldi ekki ljóð. Svo er maður að breytast í það sem maður gerði grín að. Ég er til dæmis alltaf með hatt þegar ég les ljóð, sem er frekar tilgerðarlegt, en mér finnst það gaman. Ég held samt áfram í orðaleikjum og kaldhæðni.“

Kaflaskipt eins og ástin

Titillinn á nýju bókinni er fenginn frá dóttur Björgvins sem var að teikna afmæliskort til bróður hans. Vatnsdropi féll á kortið og kámaði út teikninguna sem varð til þess að barnið skrifaði afsökunarbeiðni fyrir „svolítið sóðalegt hjarta.“ Setningin festist í Björgvini og rifjaðist upp fyrir honum þegar bókin komst á skrið.

„Ég mundi eftir því þegar ég var búinn að skrifa sex ljóð sem voru öll um ást og ástarsorg, eins og bókin er. Þessi bók er meðal annars sprottin upp úr þessari lægð sem ég gekk í gegnum.

Ég tek líka fyrir eldri sambönd í bókinni. Hún er kaflaskipt. Fyrst er allt í góðu, þar eru ástarljóð og fjör, svo er löng niðursveifla þar sem allt er í volli. Síðan er ég mættur á Tinder í lokin og þá er smá vonarglæta.

Ég hef ekki verið með þema áður í bókunum mínum en oft hefur ríkt í þeim ákveðið í andrúmsloft. Í bókinni sem ég gaf út árið 2008 var ég ástfanginn og kátur en bókin 2012 kom eftir hrunið og mótmælin sem ég hafði tekið þátt í. Þess er líka öllu alvarlegri en þær fyrri, þetta er ekki grínbók.“

Björgvin hefur síðustu vikur safnað fyrir útgáfunni á Karolina Fund. Söfnuninni lýkur eftir viku en Björgvin segir hana almennt hafa gengið ágætlega. Gangi allt að óskum líti bókin dagsins ljós fyrir jól. En þótt ritstíflan sé brostin er of snemmt að segja hvenær næsta bók líti dagsins ljós.

„Yfirleitt líður mér eins og ég sé nýbúinn að eignast barn þegar bók kemur út. Ég er þá ekki tilbúinn í aðra alveg strax og blaðran sprungin. Núna hef ég hins vegar samið 2-3 ljóð eftir að söfnin fór af stað.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.