Engin helgislepja á jólatónleikum Dúkkulísanna

Kvennasveitin Dúkkulísurnar stendur á næstunni fyrir þrennum jólatónleikum og verða þeir fyrstu tveir í Valaskjálf á Egilsstöðum um helgina. Sveitin spilar þar sín uppáhalds jólalög í bland við eigið efni, þar á meðal nýtt jólalag.

„Við eigum tvö frumsamin jólalög. Annað þeirra er nýkomið í spilun,“ segir Gréta Sigurjónsdóttir.

Lagið Frostnótt var frumflutt af Dómkórnum í Reykjavík í fyrra en söngkona Dúkkulísanna, Erla Ragnarsdóttir, er í kórnum. Hún á grunninn að laglínunni en Gréta textann.

„Hún hringdi í mig og raulaði laglínuna. Þannig verða lög stundum til. Þetta greip mig þannig ég hélt áfram að raula lagið. Fyrsta hugmynd að textanum kom mjög fljótt og ég mundi hana. Mér finnst það mælikvarði á hvort eitthvað virkar, hvort ég muni það.

Við sendum þetta á milli okkar og svo fór ég yfir til nágranna míns, Jóns Arngrímssonar, sem er með stúdíó í kjallaranum hjá sér og tók upp fyrstu töku.“

Fyrst fékk Erla vinkonu sína úr kórnum, útskrifað tónskáld, til að útsetja lagið fyrir kór. Sú fór með það til stjórnandans, Kára Þormars sem um tíma var forstöðumaður Tónlistarmiðstöðvar Austurlands, og kórinn söng það fyrir síðustu jól.

„Við áttum leið í gegnum Reykjavík og fengum að heyra lagið á æfingu. Það var ótrúlega flott,“ segir Gréta.

Engin skyndiákvörðun að halda jólatónleika

Dúkkulísurnar í dag eru sjö talsins en voru upphaflega fimm. Sveitin á uppruna sinn á Egilsstöðum og fagnaði 35 ára starfsafmæli sínu 10. október. Aðeins Gréta og Erla Ingadóttir, bassaleikari, búa enn eystra. Þær hafa farið eina sex ferðir suður, þangað sem hinar búa, á árinu.

„Að halda jólatónleika er engin skyndiákvörðun. Fyrsta æfing var í febrúar. Hver okkar kom með 2-3 af sínum uppáhaldsjólalögum,“ segir Erla Ingadóttir.

Frostnótt var tekin upp á Akureyri hjá Þorvaldi Bjarna Þorvaldssyni. Þá er væntanleg útgáfa Dúkkulísanna af Pretenders laginu „2000 miles (It Must Be Christmas Time)“ sem tekin var upp við sama tækifæri.

Þau ásamt öðru jólalagi Dúkkulísanna eru á efnisskránni á jólatónleikunum auk þess sem sveitin tekur sín þekktustu lög eins og Pamelu í Dallas.

„Það er svo merkilegt að þótt við séum búnar að spila saman í 35 þá erum við ekki orðin leiðar á þessum lögum. Við erum hættar að æfa þau, við kunnum þau svo vel, en við komumst ekkert upp með að spila þau ekki. Það er líka alltaf gaman að flytja þau því fólk kann þau. Það er magnað fyrirbæri,“ segir Gréta.

Þær segja að keyrslan verði nokkuð hröð fyrri hluta tónleikanna. „Það er engin helgislepja á þessu. Við erum ekki þekktar fyrir það,“ segir Erla.

Pálmi Gunnars gestur

Eftir hléið hægist hins vegar aðeins á og þá bætist Pálmi Gunnarsson í hópinn. „Hugmyndin um að hafa gest kom fljótt upp og það var ofan á að fá Pálma. Hann syngur með í nýja laginu og svo verða þrjú lög eftir hann,“ segir Erla.

„Það eru lögin sem koma manni í jólaskapið. Mér finnst Pálmi svo jólalegur,“ bætir Gréta við.

Fyrstu tónleikarnir verða í Valaskjálf á laugardagskvöld en síðan spila Dúkkulísurnar í Gamla bíói í Reykjavík næsta miðvikudag og Bæjarbíói í Hafnarfirði kvöldið eftir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar