Orkumálinn 2024

Endurgreiði þrotabúi yfir hundrað milljónir

Jónas A. Þ. Jónsson, áður eigandi Trésmiðju Fljótsdalshéraðs, skal greiða þrotabúi fyrirtækisins rúmar hundrað þrjátíu og fjórar milljónir króna auk dráttarvaxta. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í máli Þrotabús Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf. gegn Jónasi 7. nóvember síðastliðinn. Niðurstaða dómsins er að tíu greiðslur frá fyrirtækinu inn á einkareikning Jónasar séu ekki réttlætanlegar og því beri honum að endurgreiða þær til þrotabúsins.

Greiðslurnar voru frá einni og hálfri milljón til þrjátíu og fimm milljóna króna á tímabilinu desember árið 2004 til júní 2006, en Jónas var megnið af þeim tíma stjórnarformaður fyrirtækisins. Ekki komu fram haldbær gögn frá lögmanni Jónasar um að greiðslurnar væru réttmætar. Í dómnum er ekki getið um viðurlög ef endurgreiðsla verður ekki innt af hendi. Skiptastjóri segir enga ákvörðun liggja fyrir um hvort málið verði tekið til opinberrar rannsóknar sem efnahagsbrot. Jónas A. Þ. Jónsson er skv. dómsskjalinu búsettur í Litháen.  Hann hefur þrjá mánuði til að ákveða hvort hann vill áfrýja málinu.

Samkvæmt dómsskjali eru málavextir þeir að með úrskurði uppkveðnum 5. desember 2006 var bú Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf. tekið til gjaldþrotaskipta. Frestdagur var 24. nóvember 2006. Skiptastjóri birti fyrri innköllun vegna þrotabúsins í Lögbirtingarblaðinu þann 17. janúar 2007 og var fyrsti skiptafundur í búinu haldinn 12. apríl 2007.  Á þeim fundi, var að sögn stefnanda, vakin athygli skiptastjóra á því að skoða þyrfti greiðslur til stefnda, Jónasar A. Þ. Jónssonar, persónulega og hafi verið lagður fram óundirritaður samningur í því sambandi.  Um hafi verið að ræða stórt gjaldþrot, eins og fram komi m.a. á framlagðri kröfulýsingaskrá, enda hafði félagið stundað yfirgripsmikla byggingastarfsemi til margra ára.

Stefnandi, þ.e. þrotabú Trésmiðju Fljótsdalshéraðs, heldur því fram að bókhald og fjárreiður félagsins hafi verið með ófullnægjandi og óaðgengilegum hætti síðustu misserin fyrir gjaldþrot. Bókhald eða fylgiskjöl vegna rekstrarársins 2006 hafi ekki enn fundist. Þá hafi ekki verið gefnar á því fullnægjandi skýringar af hálfu forsvarsmanna búsins.  Að sögn stefnanda komst það bókhald, sem í dag er að finna, ekki í hendur skiptastjóra fyrr en sumarið 2007 og þá frá hendi þriðja aðila en ekki forsvarsmanna hins gjaldþrota félags. Stefnandi heldur því fram að félagið hafi ekki eingöngu verið í umfangsmiklum rekstri, heldur hafi dóttur- og systurfélög þess virst mörg og mikil viðskipti þeirra á milli, sem og viðskipti með eignarhluti í félaginu sjálfu og milli tengdra félaga og eigenda og aðstandenda innbyrðis.  Þannig séu þau óljósu viðskipti sem sögð eru hafa verið að baki þeim yfirfærslum til stefnda, sem mál þetta snýst um, af þessum toga.  Við könnun á bankareikningum og öðrum gögnum búsins hafi verið staðfestur grunur um verulegar fjármuntilfærslur til stefnda, án þess að raunverulegt endurgjald hafi komið fyrir, að mati stefnanda, eða önnur viðhlítandi skýring fundist á gjörningunum. 

Dómurinn riftir greiðslum hins gjaldþrota félags, Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf., til stefnda, Jónasar Andrésar Þórs Jónssonar, samtals að fjárhæð 134.068.000 krónur. Þá ber stefnda að greiða málskostnað sem ákveðst 1.500.000 krónur.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn ásamt meðdómendunum Guðmundi Jens Þorvarðarsyni endurskoðanda og Reyni Ragnarssyni endurskoðanda.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.