„Eitt að hlusta á plötu, annað að koma á tónleika“

Þjóðlagasveitin Brek mun í vikunni halda fimm tónleika á Austurlandi auk þess að heimsækja hjúkrunarheimili og spila þar í ferðinni. Tónlist hljómsveitarinnar og meðlimir koma úr ýmsum áttum en á sér þó kjarna úr Vestur-Húnavatnssýslu.

„Við erum gríðarlega spennt fyrir að koma austur og vonum að við fáum hina frægu austfirsku rjómablíðu,“ segir Harpa Þorvaldsdóttir, söngvari og píanóleikari.

Sveitin var stofnuð árið 2018 og spilar melódíska, þjóðlagaskotna alþýðutónlist. Hljómur hennar er settur saman úr röddum, píanói, kontrabassa, kassagítar og mandólíni. Brek leggur líka áherslu á vandaða íslensku í textum sínum. Þessi blanda skilaði sveitinni Íslensku tónlistarverðlaunum í vetur í flokki þjóðlagatónlistar.

„Fyrst og fremst voru verðlaunin viðurkenning, sem við erum gríðarlega stolt af og hvatning til að halda áfram. Okkur hefur gjarnan verið líkt við Spilverk þjóðanna, sennilega út af hljóðheiminum. Við leikum okkur með raddir og útsetningar þannig við förum ekki alltaf hefðbundnar leiðir.

Við komum sjálf úr ólíkum áttum. Ég og Jóhann (Ingi Benediktsson, gítarleikari) komum úr klassík, Guðmundur Atli (Pétursson, mandólínleikari) hefur verið í blágresi og Sigmar (Þór Matthíasson, kontrabassaleikari) úr djassi.“

Þrífast á að spila fyrir fólk

Brek leggur land undir fót næstu tvær vikurnar, hóf ferðina í Reykjavík í gær, verður í Vík annað kvöld en síðan er röðin komin að Austurlandi. Á miðvikudagskvöld opnar sveitin tónleikadagskrá Bláu kirkjunnar á Seyðisfiðri, á fimmtudag spilar hún í Randulfssjóhúsi á Eskifirði sem hluti af menningarhátíðinni Innsævi, á föstudag í Fjarðarborg á Borgarfirði, á laugardag í Beituskúrnum í Neskaupstað sem hluti af Tónaflugi og loks á sunnudag á Tehúsinu á Egilsstöðum áður en haldið verður norður í lag.

„Við ætluðum að keyra af stað árið 2020 en snarhemluðum út af Covid-faraldrinum. Í fyrra náðum við smá glugga en við hlökkum mikið til þessa túrs. Það er eitt að hlusta á plötum, annað að koma á tónleika. Eftir faraldurinn kann maður sannarlega að meta að geta spilað tónleika því við þrífumst á að hitta fólk og spila fyrir það.“

Þeim er dreifbýlið hugleikið enda Harpa og Jóhann alin upp í Vestur-Húnavatnssýslu. Þau semja mest af lögum og textum sveitarinnar en benda á að völdunum sé vel dreift. „Ég er af Hvammstanga, hann af Vatnsnesinu. Við vissum af hvort öðru en fórum ekki að vinna saman fyrr en 2018. Við tvö semjum oft grunnana saman en við klárum lögin saman sem hljómsveit,“ segir Harpa.

Auk tónleikanna fimm eystra stefnir sveitin að leika á hjúkrunarheimilum á svæðinu en búið er að staðfesta heimsóknir í Breiðablik í Neskaupstað og Hulduhlíð á Eskifirði. „Okkur er hugleikið að koma við á dvalarheimilum og taka nokkur lög. Við erum með órafmögnuð hljóðfæri og þess vegna er það þægilegt fyrir okkur.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.