Eistnaflug: Þarf ekki mikið að hvetja okkur til að fara úr að ofan

Hljómsveitin Thingtak er meðal þeirra sveita sem koma fram á hliðarsviði Eistnaflugs, þar sem hún spilaði í gærkvöldi. Hljómsveitin hefur verið lengi að og á sinn fylgjendahóp sem ávallt hvetur meðlimi sveitarinnar til að afklæðast á sviðinu.

„Það þarf ekki mikið að hvetja okkur til þess. Fyrir tíu árum hefði ekki þurft að hvetja okkur mikið til að fara úr að neðan líka. Við höfum sennilega oftar spilað þannig.

Okkur fannst ekki tilefni til þess núna þar sem við spiluðum bara í hálftíma. Við hefðum trúlega gert það ef við hefðum spilað hálftíma í viðbót,“ segir Stefán Jakobsson, söngvari sveitarinnar.

„Við höfum mikla fíflnennu. Ég vil samt taka skýrt fram að við erum fífl en ekki fávitar. Við brjótum engar reglur,“ segir Hrafnkell Brimar Hallmundsson, gítarleikari.

„Líkamslyktin skilar sér betur í vit manna þegar farið er úr að ofan. Við vorum komnir í „free the nipple“ löngu áður en það komst í tísku,“ segir Stefán og Hrafnkell bætir við: „Við frelsum þá líkamshluta sem þarf.“

Thingtak er í hópi þeirra sveita sem spila á hliðarsviðinu, Stúkunni í Egilsbúð. Þar komu einnig fram í gærkvöldi Tuð, DDT Skordýraeitur og Sárasótt. Þar spila hljómsveitir gjarnan á milli þess sem hljómsveitir í stóra salnum koma sér fyrir á sviðinu.

„Þetta var ógeðslega gaman, sveitt og hressandi – og rosalega mikill hávaði. Ég hef ekki spilað áður formlega á hliðarsviðinu en ruðst inn í gigg annarra og spilaði á trommur með Tuði fyrir tveimur árum,“ sagði Stefán eftir tónleikana. „Þetta var hressandi, í fjallaloftinu, þokunni og hávaðanum,“ bætir Hrafnkell við.

Hrafnkell var að spila í fyrsta sinn á Eistnaflugi en hann hefur einu sinni sótt hátíðina sem gestur. Það var á fyrstu árum hennar. „Mér finnst mjög fínt að vera hér núna. Ég er aðeins þyngri en þá en ég held að ég njóti hátíðarinnar betur því ég næ betri jarðtengingu.“

Stefán er hins vegar fastagestur því hann hefur verið á hátíðunum öllum frá 2011, utan hátíðarinnar í fyrra. „Það sem ég finn í þessari hátíð er svakaleg ást og viðurkenning á því sem er öðruvísi. Það mega allir vera skrítnir.“

Hann kemur fram á aðalsviðinu með hljómsveitinni Dimmu í kvöld. „Við erum á eftir Vicky, sem við í Thingtak spiluðum mikið með í gamla daga og svo stuttu á eftir okkur eru Sólstafir. Við erum með nýjan trommar, frumflytjum nýtt lag og förum beint á að gera nýja plötu eftir Eistnaflug. Þetta kvöld verður því alveg sturlað.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar