Eiðar - karl, kona eða rif

Eiðar í Eiðaþinghá eru tvímælalaust eitt af merkari höfuðbólum landsins og nær saga staðarins aftur til ársins 1000 eins og lesa má HÉR. Auður og völd hafa fylgt staðnum nær alla tíð og á miðöldum Íslandssögu varð Eiðastóll frægur fyrir mikla auðsöfnun. Eiðakirkju er fyrst getið í kirknatali Páls biskups Jónssonar 1197.

En þrátt fyrir að nafn þessa merka staðarf hafi verið Íslendingum tamt á tungu í 1000 ár, þá vefst uppruni og merking þess fyrir flestum. Í það minnst þá er fólk ekki sammála um merkingu þess og kyn. Flestir virðast beygja orðið í karlkyni fleirtölu:

Nf. Eiðar
Þf. Eiða
Þgf. Eiðum
Ef. Eiða.

Aðrir beygja það í kvenkyni fleirtölu og þolfallið er þá Eiðar.

Ef gengið er út frá því að nafnið sé karlkyns, þá er það væntanlega fleirtalan af mannsnafninu Eiður, sem merkir svardagi, í fleirtölu svardagar, sbr.: Þeir sóru eiða.

Tilgátur eru einnig um að nafnið hafi orðið til vegna staðhátta; bærinn hafi verið reistur á eiði (hvk), sem samkvæmt Wikipediu er: mjó landræma sem tengir tvo landmassa, og samkvæmt Íslenskri nútímamálsorðabók: rif eða landræma úr sandi eða möl sem tengir eyju við land eða tvær eyjar saman.

Ekki er óhugsandi að fleirtölumyndin af eiði hafi í fornöld verið í kvenkyni, þ.e. eiðar. Nærliggjandi eru Eiðavatn og Lagarfljót, en bæjarstæðið eins og það er nú er varla hægt að tengja við þessar myndir. Sand- eða malarrif, fleiri en eitt, eru ekki augljós í landslaginu. En hugsanlegt er að fyrsta bæjarstæðið hafi verið annarsstaðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.