Orkumálinn 2024

„Ég vona að ég sé bara rétt að byrja“

Eskfirðingurinn Benný Sif Ísleifsdóttir verður með tvær bækur í jólabókaflóðinu í ár, annars vegar skáldsöguna Grímu og hins vegar barnabókina Jólasveinarannsóknin. Bækurnar eru þær fyrstu sem Benný Sif sendir frá sér.


Gríma er skáldsaga fyrir fullorðna og Benný Sif hlaut nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta í vor fyrir handritið af henni. Bókin er gefin út hjá Bjarti og Arndís Lilja Guðmundsdóttir gerði kápuna. Jólasveinarannsóknin var gefin út af Bókabeitunni og Elín Elísabet Einarsdóttir myndskreytti.

„Svona af því ég er nýr höfundur og komin á miðjan aldur varð ég bara að byrja með trukki og koma með tvær bækur í ár,“ segir Benný Sif og hlær. „Ég hef alltaf ætlað mér að skrifa en var ekki komin á þann stað fyrr en núna. Ég á fimm börn og fjur fyrstu eru fædd á tæpum sex árum þannig að það var nóg að gera á stóru heimili. Þegar þau fóru að stálpast eignaðist ég eitt í viðbót og fór svo í þjóðfræði í Háskóla Íslands þar sem ég tók bæði grunn- og meistaragráðu. Eftir það sá ég fyrir mér að fá vinnu við fagið en þegar það gekk brösulega ákvað ég að setjast niður og gera það sem mig hafði alltaf langað, þannig að stundum þarf eitthvað svoleiðis til þess að maður hundskist í verkið,“ segir Benný Sif.

„Gríma er minn bakgrunnur“
„Gríma er í raun minn bakgrunnur, sögusviðið sem ég ólst upp á, má kannski segja. Pabbi var skipstjóri og mamma því sjómannskona. Sömuleiðis tengdamóðir mín. Mig langaði að skoða líf sjómannskvenna fyrir öllum þessum árum og þessi saga á að gerast á sjötta og sjöunda áratugnum. Mennirnir voru nánast aldrei heima og lítil tækifæri til samskipta þegar þeir voru á sjónum. Ég velti því upp hvernig þetta var, konurnar meira og minna einar með börnin og heimilið og í þau fáu skipti sem þeir komu heim bara ruglaðist takturinn í tilverunni og það eina sem hafðist kannski upp úr heimsókninni var eitt barn í viðbót. Að ekki hafi verið byrjað að tala um ofurkonur á þessum tíma er mér óskiljanlegt.“

Boðskapurinn snýr að notkun snjalltækja
„Jólasveinarannsóknin fjallar um þrjá vini sem ákveða að kanna hvort það séu í alvörunni jólasveinar sem gefa í skóinn en ekki foreldrarnir. Hvernig málið upplýsist fer eftir aldri og þroska lesenda og opinberast í samræmi við það. Boðskapur bókarinnar snýr að notkun á snjalltækjum, dreifingu á efni og öðru því tengdu. Svo nýti ég mér einnig mína menntun sem þjóðfræðingur og mikið efni er til um jólasveina og þá vættir sem fara á stjá í skammdeginu.“

„Ég fékk bara tár í augun og kiknaði í hnjáliðunum“
Benný Sif segir það ólýsanlegt að fá fyrstu bókina sína í hendurnar. „Ég fékk bara tár í augun og kiknaði í hnjáliðunum. Það eru svo mörg skref sem þarf að taka í bókaútgáfu og þetta verður fyrst raunverulegt þegar maður heldur á fyrsta eintakinu og flettir því í gegn til þess að athuga hvort að allar blaðsíðurnar snúi ekki örugglega rétt.“

Benný Sif segist ætla að halda ótrauð áfram. „Ég vona að ég sé bara rétt að byrja. Ég er með tvær bækur í smíðum núna, eina skáldsögu fyrir fullorðna og eina barnabók. Hvort það verður viðmiðið að gefa út tvær bækur á ári skal ég ekki segja, en það er gaman að byrja svona.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.