„Ég vildi sjá hvort ég gæti ekki unnið eitthvað flott í höndunum“

„Mig langaði að gera eitthvað öðruvísi í lokaverkefni og vildi breyta til þar sem ég var búin að vinna í bókum og verkefnum rosalega lengi,“ segir Salka Sif Hjarðar, sem hannaði skartgripalínu og heimasíðu fyrir sitt lokaverkefni við Menntaskólann á Egilsstöðum.


Salka Sif segir hugmyndina hafa kviknað þegar hún var að vinna með hreindýrshorn í listaáfanga í skólanum.

„Ég ákvað því að spreyta mig og sjá hvort ég gæti ekki unnið eitthvað flott í höndunum því ég hef alltaf haft áhuga á hannyrðum en aldrei látið reyna mikið á það að skapa sjálf. Mér fannst frábær hugmynd að nýta það sem við höfum í náttúrunni til þess að búa til skartgripi. Amma mín, Antonía Margrét Sigurðardóttir, hefur mikið unnið með hreindýraleður og ýtti það undir hugmyndina um að hafa hreindýraþema í verkinu. Ég fékk að nota leðrið frá henni og Hlynur Halldórsson á Miðhúsum leyfði mér að nota aðstöðuna sína til þess að vinna að verkefninu. Annars vann ég það mest heima í bílskúrnum, aðallega með borvél og fræsara. Pabbi minn, Þorvaldur S. Benediktsson Hjarðar, leyfði mér einnig að nota smíðastofuna í Fellaskóla í Fellabæ til þess að saga niður hornin í bandsög.“

„Maður veit aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér“
Salka Sif endaði með því að gera þrjár gerðir af skartgripum og nefndi þá eftir náttúruperlum á Austurlandi. „Þerribjarg minnti mig mikið á litasamsetninguna sem ég notaði við verkið og ákvað því að skíra eitt settið eftir því. Einnig fannst mér Stapavík minna mig mikið á endana á hornunum þar sem háir og mjóir hólar standa í Stapavíkinni. Magnahellir fannst mér svo líkjast rótum hreindýrahornanna þar sem götin virka eins og hellir með grjóti umhverfis.

Ég hannaði svo mitt eigið „lógó“ til þess að hafa á skartgripaboxunum. Ég ákvað svo að hafa hreindýramosa í botninum á boxunum til þess að tengja við íslenska náttúru,“ segir Salka Sif sem stefnir á að fara í lýðháskóla í Danmörku og segist ekki hafa áform um að þróa skartið áfram eins og er. „Það tók frekar langan tíma að vinna að þessu og ég gæti hugsað mér að selja það sem ég hef búið til, en maður veit aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.