„Ég vildi reyna að finna nafn sem myndi einmitt vekja viðbjóð"

Hljómsveitin Sárasótt frá Stöðvafirði hitaði upp fyrir DDT Skordýraeitur á nýafstöðnum útgáfutónleikum þeirra milli jóla og nýárs. Sárasótt var stofnuð formlega árið 2017. Forsprakki hljómsveitarinnar, Þórir Snær Sigurðsson, auglýsti eftir meðlimum en fékk bara svör frá grunnskólastrákum en var sjálfur að kominn yfir tvítugt. Hann lét það ekki stoppa sig og hljómsveitin varð til. 

 

Bandið fylltist af grunnskólakrökkum

Þórir Snær auglýsti á Facebook eftir fólki sem vildi vera með í lélegri pönkhljómsveit. „Ég fékk ekki mikil svör í fyrstu en svo byrjaði þetta að koma.  Mamma Jónatans, trommarans, samband til dæmis við mig og spurði hvort hann mætti vera með. Þá var hann í áttunda bekk. Mér var alveg sama svo lengi sem hann mætti á æfingar.

Siggi frændi minn varð fyrstur til að koma í hljómsveitina og svo bættust Máni og Svavar við. Þeir voru allir í grunnskóla þegar þeir byrjuðu en ég var eilífðarstúdent í Verkmenntaskóla Austurlands. Ég er fimm árum eldri en næst elsti meðlimurinn,” segir Þórir Snær og hlær.

Léleg pönkhljómsveit

Að auglýsa sérstaklega eftir meðlimum í lélega pönkhljómsveit verður að teljast óvenjuleg leið til að fá fólk í hljómsveit. „Þetta snýst allt um væntingastjórnun. Ég sagði við strákana þegar við byrjuðum að þetta væri pönkhljómsveit á Íslandi og við ættum ekki að gera okkur neinar svakalegar væntingar,“ segir Þórir.

Hann bætir við að þetta þýði líka að það er nákvæmlega engin pressa á þeim að vera góðir, sem þeim þykir frábært. „Það er fínt að þurfa ekki að díla við þá pressu. Sjáðu bara allar þessar hljómsveitir sem þurfa alltaf að skila jafn góðri vöru og þeir bjuggu til síðast,“ segir hann.

Ógeðslegt nafn

Það virðist vera óskrifuð regla hjá allmörgum pönk- og þungarokkhljómsveitum að heita einhverju ógeðslegu nafni ogþað gildir líka um þessa hljómsveit. Þegar Þórir er spurður út í nafnið segir hann að hann hafi viljað vekja viðbjóð fólks. Þetta er nú einu sinni pönkhljómsveit. 

„Mér fannst þetta passa vel við hljómsveit. Ég vildi reyna að finna nafn sem myndi einmitt vekja viðbjóð. En því miður virðist þetta ekki vekja nógu mikil viðbrögð. Fólki finnst þetta bara frekar fyndið. Það var reyndar einn gamall kall sem fannst þetta alls ekki sniðugt. Hann er auðvitað ekki hluti af markhópnum en við erum mjög þakklátir honum fyrir að finnast þetta,” segir Þórir Snær auðmjúkur.

Spila alltaf meira og meira

„Við höfum verið að spila á svona þremur til fjórum tónleikum á ári. Þeim fer heldur fjölgandi með árunum. Við erum með nokkra tónleika á teikniborðinu fyrir þetta ár og erum að bíða eftir svari frá tónleikahöldurum. Svo eru DDT Skordýraeitur mjög duglegir að fá okkur til að spila með þeim. Eins og til dæmis 27. desember síðastliðinn á útgáfutónleikunum þeirra.

Hljómsveitin hefur gefið út eina plötu sem nefnist Byrjun að endi og var gefin út af Skaufi records. Öll hulstrin eru heimagerð af hljómsveitinni sjálfri. Þórir segir að þeir hafi búið til um 70 diska og einungis 20 séu eftir. „Ég vona bara að sem flestir fái að upplifa Sárasótt,“ segir Þórir Snær að lokum og á augljóslega við hljómsveitina en ekki kynsjúkdóminn. Vonandi.

 

Hljómsveitin lætur ekki segja sér fyrir verkum og fer greinilega út fyrir normið. Mynd: Fjölnir Helgi. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.