„Ég vil að fólk væli minna og brosi meira“

 

Nýju ári fylgja nýjar áskoranir og væntingar. Austurglugginn fór á stúfana á Reyðarfirði og náði tali af nokkrum bæjarbúum og lagði fyrir þá spurninguna: Hvaða væntingar hefur þú til ársins 2019? Hér er brot af því besta.„Ég held að þetta verði bara gott ár, ég er alltaf yfirmáta bjartsýn. Fyrir Fjarðabyggð bind ég miklar vonir við fræðslu- og frístundastefnu Fjarðabyggðar,“ segir Guðlaug Björgvinsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú, en hún situr í nefnd fyrir hönd foreldra á leikskólanum Lyngholti á Reyðarfirði, sem er að endurskoða þá stefnu. „Það er mjög spennandi verkefni og mér finnst alltaf gott þegar allir eru fengnir að borðinu í slíka vinnu, ekki aðeins unnið ofan frá og niður.

Vill sjá bættar samgöngur
Það sem ég óska mest fyrir Fjarðabyggð eru bættar samgöngur. Við eigum að heita eitt sveitarfélag en samgöngurnar hérna eru ömurlegar. Ég vil bara sjá strætó sem gengur á hálftíma fresti milli byggðarkjarnanna, ég skil ekki hvernig þetta á að ganga annars. Sérstaklega fyrir börnin okkar og unglingana að geta sótt íþróttir og tómstundir milli staða. Ég man að okkur var lofað öllu fögru þegar sundlaugin á Eskifirði var opnuð, ennþá eru ekki komnar almenningssamgöngur til þess að unglingarnir okkar komist sjálfir í sund. Mér þykja samgöngurnar helst vera það sem við þurfum að bæta.

„Mér finnst við ekki sameinuð”
Einnig að vera sameinuð, mér finnst við ekki sameinuð. Ég vona að það sé að breytast til batnaðar og trúi að með hverju árinu og hverjum einstaklingi sem er alinn upp í þessu samfélagi færumst við nær. Ég er viss um að þetta verður öðruvísi þegar við eldumst. Ég kannski hljóma rosalega svartsýn, en það er af því ég er svo mikill umbótasinni, ég vil alltaf breyta hlutunum.“Fólk duglegra við að horfa á það neikvæða en jákvæða
„Ég vil að fólk hætti að væla og verði jákvæðara,” segir Paulius Naucius, starfsmaður íþróttahússins á Reyðarfirði. „Fólk er miklu duglegra að finna allt sem er ómögulegt í stað þess að horfa á það jákvæða, en þessu verðum við að breyta með því að taka skrefin sjálf. Auðvitað eru sumir illa staddir og allt það, en mér finnst allt of algengt að þeir sem eru við fína heilsu og eiga allt til alls séu neikvæðir,“ segir Paulius, en hann kom því í kring að eldri borgarar geti komið sér að kostnaðarlausu í æfingasalinn millli klukkan 9:00 og 11:00 á morgnana. „Það er skemmtilegt að sjá hvað fólk er duglegt að nýta sér það, koma brosandi og mjög ánægt með framtakið.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar