„Ég upplifi frelsistilfinningu snemma sumars“

Guðrún Lilja Magnúsdóttir er nýr starfsmaður Menningarstofu Fjarðabyggðar og hefur komið að skipulagningu og kynningarmálum BRAS, menningarhátíð barna- og ungmenna á Austurlandi sem sett verður á morgun. Guðrún Lilja er í yfirheyrslu vikunnar.


„Ég starfa sem verkefnastjóri með Körnu Sigurðardóttur, forstöðukonu Menningarstofu. Starfið mitt verður fjölbreytt enda mörg járn í eldinum og spennandi vetur framundan hjá okkur,“ segir Guðrún Lilja sem flutti nýverið í Fellabæ frá Reykjavík með konu sinni Jódísi Skúladóttur og börnum þeirra.

Guðrún Lilja er ánægð með BRAS. „Mér finnst þetta ótrúlega frábært, það er svo mikilvægt fyrir börnin okkar að fá að finna að þeirra menning skiptir líka máli og að henni sé gert hátt undir höfði. Smiðjurnar sem hafa verið í gangi í Fjarðabyggð brjóta upp hefðbundið skólastarf, en það er rosalega mikilvægt að við hjálpum þeim krökkum sem ekki finna sig í hefðbundnu skólastarfi að skapa sér annan farveg til að tjá sig, eins og í allskonar listsköpun með listamönnum.“

Fullt nafn: Guðrún Lilja Magnúsdóttir.

Aldur: 38 ára.

Starf: Verkefnastjóri hjá Menningarstofu Fjarðarbyggðar.

Maki: Jódís Skúladóttir.

Börn: Alex Skúli, Magnús Bjartur, Eldey Arna, Ásgrímur Ari.

Undarlegasti matur sem þú hefur smakkað? Afríkanskur kjötréttur með bönunum – samt mjög gott.

Hver er þinn helsti kostur? Samskiptafærni.

Hver er þinn helsti ókostur? Fullkomnunarkomplexar.

Ef þú ættir eina ósk? Þá væru allir jafnir og byggju í fullkomnu öryggi alltaf.

Hvaða árstíð heldur þú mest upp á og af hverju? Sumarið er tíminn. Sól og hiti, gróður í fullum blóma og loftið angar af nýslegnu grasi, það er ekkert betra og ég upplifi frelsistilfinningu snemma sumars. Ekki það, allar árstíðir eru með sinn sjarma. Eins og haustið, veiðar eru mér ofarlega í huga þó að ég komist ekki fyrr en seinna í september.

Hvað er rómantík? Að elska makan sinn í hversdagsleikanum. Svo elska ég allar stundir sem við náum að gera eitthvað skemmtilegt tvær saman, hvort sem það er kvöldveiði eða að fara út að borða tvær barnlausar.

Trúir þú á líf eftir dauðann? Algjörlega.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum? Mjólk, tómatsósa og ostur.

Ef þú fengir að bjóða fimm manns úr mannkynssögunni í mat, hverjir yrðu fyrir valinu? Albert Einstein, Adolf Hitler, Barak Obama, Aritha Franklin og Ellý Vilhjálms. Fólk sem ég myndi vilja hitta af mjög ólíkum ástæðum.

Syngur þú í sturtu?Já það kemur fyrir.

Ef þú þyrftir að dansa til að bjarga lífinu, undir hvaða lagi myndirðu vilja dansa? Í átt að tunglinu með Jóa P – uppáhalds lagið mitt þessa dagana. 

Hvernig er týpískur dagur hjá þér? Vakna, sinna börnum, drekka mikið kaffi, vinna, sækja börn, koma heim og sinna heimili og börnum. Koma þeim í háttin og slaka á með Jódísi.

Draumastaður í heiminum? Mig langar að fara til Afríku, en Ítalía er minn uppáhalds staður í heiminum og Feneyjar eru mjög hátt skrifaðir í draumum mínum.

Duldir hæfileikar? Ég syng ágætlega, en ég er ekki mikið fyrir að koma fram svo það hefur ekki mikið verið notað síðan ég hætti í kórnum mínum.

Hvernig hljómar fullkominn laugardagur? Tveir möguleikar. Gott veður: Veiði, Vont veður: Video allan daginn.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Úff svo margir, en mest hefur það verið sterkar kvennfyrirmyndir sem hafa verið á vegi mínum í lífunu. Til dæmis Vigdís Finnbogadóttir.

Hver er tilgangurinn með þessu jarðlífi? Að eignast börn og lifa hamingjusömu lífi.

Hvað er það merkilegasta sem hefur gerst í heiminum á þínum líftíma? Tæknibyltinginn almennt og farsímavæðingin þá sérstaklega.

Hvaða viðburð sérðu mest eftir að hafa misst af? Að hafa ekki farið á tónleika með Ellý Vilhjálms á meðan hún lifði.

Hver er þín fyrsta æskuminning? Ég að elda á leikskólanum mínum, ég elska að elda góðan mat.

Hvað ætlar þú að gera um helgina? Vinna við setningarhátíð BRAS í Tónlistarmiðstöð Austurlands með fullt af skemmtilegu fólki og krökkum. Ég hlakka mikið til.

Ljósmynd: Sebastian Ziegler.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.