„Ég spurði pabba hvort ég ætti að nefna stofuna Skallinn“

„Mér líður ótrúlega vel hérna og við erum í skýjunum með þetta,“ segir Hekla María Fjallman Samúelsdóttir, sem opnaði hárgreiðslustofu sína Hárbankann formlega í dag.


Hekla útskrifaðist sem hársnyrtir árið 2016 og förðunarfræðingur árið 2017. Hárbankinn er á Búðareyri 3 á Reyðarfirði, í því húsi sem Landsbankinn var lengst af, en húsið er nú í eigu foreldra hennar.

„Ég ætlaði alltaf að verða hárgreiðslukona, það kom aldrei neitt annað til greina. Þegar tækifærið svo gafst á að opna eigin stofu stökk ég bara á það. Það er alger draumur að eiga sitt eigið, auk þess sem ég er að vinna mig út úr axlameiðslum og því gott að vera sinn eigin herra,“ segir Hekla, sem kom stofunni upp á tveimur mánuðum með hjálp fjölskyldu sinnar.

Gróft og gamaldags
„Þetta hefur tekið tíma og þolinmæði, en við erum búin að þrasa töluvert,“ segir Hekla og hlær. Stofan er skemmtilega innréttuð, en Hekla vissi alveg hvaða stíl hún vildi hafa.

„Ég vildi hafa þetta gróft og gamaldags og smá ryð. Veggurinn er gamalt parkett sem er neglt niður með afgangsnöglum úr þaksaumnum hjá bróður mínum. Hillurnar eru vörubretti og svo er ég með steypujárnsgrind til þess að hengja á hárblásara og fleira. Afgreiðsluborðið er gert úr gamalli hurð og pabbi á allan heiðurinn af því. Ég var reyndar búin að sýna honum mynd af sambærilegri hugmynd, en hann þykist aldrei hafa séð hana og telur þetta alfarið sína hugmynd, við skulum bara leyfa honum að halda það.“

Hárgreiðsla og förðun á sama stað
Hekla er ekki í vafa um að Reyðarfjörður beri þrjár hárgreiðslustofur. „Já, það er ekki spurning, en við erum að fá fólk úr allri Fjarðabyggð, auk þess sem fólk þarf alltaf í klippingu þannig að ég sé fram á að hafa nóg að gera. Ég býð svo einnig upp á förðun og það er þægilegt að gera farið í hárgreiðslu og förðun á sama stað. Einnig er ég að selja snyrtivörur frá Haustfjörð.is, en það er frábært að geta skoðað áður en maður kaupir.“

„Hárbankinn er alveg fullkomið“
Hekla segir að nafnið Hárbankinn hafi legið beinast við. „Það var það fyrsta sem kom upp í hugann, enda húsið lengst af banki og það eru peningageymslur á tveimur stöðum í húsinu. Ég spurði pabba hvort ég ætti að nefna stofuna Skallinn þar sem hann er sköllóttur, en hann hafði ekki húmor fyrir því þá. Í dag finnst honum hins vegar að ég hefði átt að velja það nafn, en Hárbankinn er alveg fullkomið.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar