„Ég næ aldrei að þakka Daníel fyllilega“

Eskfirski tónlistarmaðurinn Þórhallur Þorvaldsson lét allan ágóða af útgáfutónleikum sínum af geisladisknum Vindum, vindum, renna til Jólasjóðs Fjarðabyggðar og Breiðdalshrepps.


„Ég hef verið þannig þenkjandi gegnum tíðina og er enn, að miðla því sem maður á. Þegar tónleikarnir komu til fannst mér að ég yrði að gera eitthvað í þá veruna, orðaði það við félaga mína sem voru með mér í þessu og það varð úr – ég afhenti Jólasjóðnum dágóða upphæð fyrir jólin,“ segir Þórhallur. Geisladiskurinn Vindum, vindum, hefur að geyma lög Þórhalls sem hann hefur samið gegnum tíðina.

„Ég er alinn upp við tónlist en við vöknuðum og sofnuðum iðulega við söng og hljóðfæraleik heima í Sigurðarhúsinu. Við erum sex systkinin, fimm bræður og ein systir, en við fjórir bræðurnir höfum tekið virkan þátt í tónlistarlífi og þannig hefur þetta bara þróast.“

Faðir Þórhalls, Þorvaldur Friðriksson, var iðinn við að semja lög og texta og réðust Þórhallur og fleiri í að gefa út geisladisk með hans efni fyrir um fimmtán árum. „Mér datt hins vegar aldrei í hug að koma mínum lögum út,“ segir Þórhallur, en hann samdi titillag plötunnar árið 1974 og var það jafnframt hans fyrsta lag. 

„Það var gamall maður að nafni Tryggvi Eiríksson sem fór með svokallaðan húsgang fyrir mig sem hann sagði mér að væri draumvísa, bað mig um að skrifa hana niður og helst semja við hana lag, sem ég og gerði. Það atvikaðist svo að lagið var flutt í sjónvarpinu sama ár, í þættinum Heyrðu manni með Bessa Bjarnasyni. Þar mættum við saman félagarnir, ég og Tryggvi og fluttum lagið saman. Síðan hef ég alltaf samið eitthvað en þó aðallega síðustu átta árin. Ef ég heyri eða sé fallegan texta með góðum boðskap þá á ég það til að semja við hann lag.“


Að hrökkva eða stökkva
Þórhallur segir það vera fyrir tilstilli tónlistarmannsins Daníels Arasonar að lögin hans séu nú til á geisladisk. „Daníel komst að því að ég safnaði lögunum mínum á diktafón en hann fékk hann lánaðan og bjó til nótur við allt heila klabbið. Hann sagði mér svo að nú væri orðið tímabært að fara að koma þessu frá mér á plötu. Ég var voðalega hógvær með mína tónlist og fannst ég vera búinn að bjarga þessu frá glötun.

Hann kom svo með nóturnar til mín síðastliðið vor og sagði að nú væri bara að hrökkva eða stökkva. Ég ræddi málin við mitt bakland og konan mín studdi mig heilshugar í þessu brölti. Daníel sá um allar útsetningar og upptökur, og við fengum svo til liðs við okkur úrvals fólk, mest skyldmenni og góða vini.“

 

Aldarmunur á milli gesta

Útgáfutónleikar voru svo haldnir í Menningarmiðstöðinni á Eskifirði um miðjan október. „Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum þegar ég steig á svið en húsið var troðfullt, eða um 300 manns. Það sem gladdi mig mest var að sjá að á meðal gesta var bæði þriggja ára gamalt barn sem og hundrað ára öldungur, þannig að það var nánast aldarmunur á yngsta og elsta gesti.

Þetta hefur allt verið hálf tilviljanakennt og ég næ aldrei að þakka Daníel fyllilega fyrir að hvetja mig til þess að fara út í þetta, sem og öllum þeim sem komu að þessu ævintýri með mér. Ég get ekki lýst þessari tilfinningu öðruvísi en svo að mér fannst ég ekki vera að gera þetta allt saman, heldur var eins og ég væri í draumi. Þegar allt var búið og gert var ég heillengi að átta mig á því að þetta væri orðið að veruleika.“

Sem áður segir rann allur ágóði tónleikanna í Jólasjóð Fjarðabyggðar og Breiðdalshrepps. „Tilfinningin þegar ég hafði skilað af mér peningunum fyrir jólin var alveg einstök og mér leið alveg óskaplega vel þegar ég keyrði heim að því loknu. Ég vona svo sannarlega að þessi upphæð hafi hitt á réttan stað og hjálpað einhverjum.“

Ljósmynd: Atli Börkur Egilsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.