„Ég hélt að ég yrði poppstjarna en varð lögga“

Lögreglufulltrúinn Steinar Gunnarsson frá Norðfirði var á dögunum kosinn maður ársins 2018 á Austurfrétt. Steinar er í yfirheyrslu vikunnar.Steinar hóf sinn feril í lögreglunni í Neskaupstað árið 1994. „Fyrstu vaktirnar mínar tók ég hjá vini mínum og mentor, Sigurjóni Jónssyni varðstjóra í Neskaupsstað. Síðar fluttust ég norður ásamt fjölskyldunni í nokkur ár þar sem ég var að spila með hljómsveit Geirmundar samhliða því að temja hesta. Það var svo árið 1998 sem ég hóf störf í lögreglunni í fullu starfi. Ég veit hreinlega ekki hvað varð til þess en einhvern veginn höguðu örlögin því að málin þróuðust í þá átt að þetta varð mitt ævistarf. Ég hélt að ég yrði poppstjarna en varð lögga. Svona getur lífið tekið óvænta stefnu og komið skemmtilega á óvart.“

Aðspurður að því hvað heldur honum í starfinu ár eftir ár segir Steinar. „Það er spurning sem ég spyr sjálfan mig reglulega. Starfið er í eðli sínu skemmtilegt. Það er krefjandi og fullt af áskorunum en getur líka verið mjög erfitt og reynt á sálina. Það má segja að enginn dagur sé eins og óvæntir hlutir eiga það til að skjóta upp kollinum án nokkurs fyrirvara. Það hentar mínum persónuleika ágætlega. Starfsumhverfið hefur einnig mikið um þetta að segja, en ég hef verið svo lánsamur að tilheyra frábærum lögregluliðum auk þess sem fjölskyldan hefur staðið með mér í gegnum súrt og sætt og vegur það þungt.“

Hver ætli sé helsti munurinn á lögreglustarfinu þegar hann byrjaði og nú? „Það hefur margt breyst, ekki bara fötin. Þegar ég byrjaði voru terlínbuxur, úlpa, hvítt kasskeyti, handjárn og trékylfa. Nú erum við mun betur búin á allan hátt. Varðandi starfsumhverfið þá er flest orðið talsvert flóknara í dag. Skipulögð glæpastarfssemi virðist hafa náð að festa rætur á Íslandi og er það eitthvað sem verður að teljast nýtt í okkar umhverfi. Tölvu- og netglæpir er svo tiltölulega nýr veruleiki, en í dag nota glæpamenn netið meðal annars til að fremja afbrot í auðgunarskyni. Netið; ýmis snjallforrit og samskiptasíður eru í auknu mæli notuð sem kúgunartæki og eins til að ná fram hefndum og margt fleira. Þá hefur fíkniefnaneysla stór aukist og áróður með fíkniefnum og lögleiðingu þeirra er sífellt þyngri. Það er kannski ekki skrítið þar sem fíkniefnamarkaðurinn veltir miklum fjármunum og auðvelt að auðgast á honum ef menn vilja fara á það plan. Mér finnst það samt skjóta svo skökku við því á sama tíma sjáum við fleiri dauðsföll tengdum fíkniefnaneyslu sem og harmleiki þeim tengdum."

Er einhverjar breytingar sem þú vilt sjá innan lögreglunnar? „Já þar er alltaf eitthvað sem mætti gera betur. Það sem stendur mér kannski næst er að ég vonast til að sjá lögregluna nýta sér hunda til fjölbreyttari verka í framtíðinni en áður hefur tíðkast á Íslandi. Við höfum stigið skrefið í rétta átt og munum ekki láta deigan síga. Lögreglan, eins og aðrar stofnanir, þarf að vera í stöðugri sjálfskoðun til að mæta auknum kröfum sem gerðar eru til starfsins og held ég að flestir innan lögreglunnar leitist við að gera það."

Fullt nafn: Steinar Gunnarsson.

Aldur: 49 ára þar til 12. febrúar.

Starf: Lögreglufulltrúi.

Maki: Kolbrún A. Kjerúlf.

Börn: Elísabet Ýrr, Steinar Gunnar, Tómas Axel og Mathilda Dalía.

Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Ég væri til í að setjast niður með Jesús og fara yfir málin með honum.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Samkennd.

Hvað er leiðinlegasta húsverkið þitt og af hverju? Setja í þvottavél. Líklega vegna þess að mér tekst yfirleitt að eyðileggja eitthvað þegar ég geri það.

Duldir hæfileikar? Ég held að ég sé búinn að opinbera flesta hæfileika mína, nema kannski helst málaralistina en ég hef gaman að því að taka mér pensil í hönd og mála myndir í ró og næði.

Mesta afrek? Börnin mín.

Hver er þín fyrsta æskuminning? Mamma.

Hver er þinn helsti kostur? Það verða aðrir að dæma.

Hver er þinn helsti ókostur? Hvatvísi.

Draumastaður í heiminum? Íslenska náttúran.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? Nauta rib eye steik blue.

Heitir þú í höfuðið á einhverjum? Steinunni Símonardóttur, langömmu minni.

Borðar þú þorramat og ef svo er, hvað er í uppáhaldi? Já. Mér finnst allur Þorramatur góður en hákarlinn er sérstakt uppáhald.

Besta bók sem þú hefur lesið? Þar er af mörgu að taka, Glæpur og refsing eftir Fjodor Dostojevskí og Sjálfsætt fólk eftir Halldór Laxnes deila þeim heiðri. 

Hefur þú komist í hann krappann í vinnunni? Já, oftar en ég hef tölu á.

Ef þú gætir öðlast yfirnáttúrulegan kraft, hver væri hann? Að geta leyst lífsgátuna.

Hvert er besta lag sem þú hefur samið? Mathilda.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Ætli það sé ekki pabbi minn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar