„Ég hef alla mína rússneskukunnáttu úr Fóstbræðrum“

„Ég reyndi tvisvar að sækja um miða á alla þrjá leiki Íslands í riðlinum, en Pútín vildi greinilega ekki hafa okkur félagana of lengi í Rússlandi, svo eg fer á seinni tvo,“ segir Héraðsbúinn og Borgfirðingurinn Dagur Skírnir Óðinsson, sem staddur er í Rússlandi ásamt vinum sínum til að hvetja íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu til dáða. Hann er í „HM-skotinni“ yfirheyrslu vikunnar.


Dagur Skírnir segist vera mikill fótboltaáhugamaður og hann hafi aldrei átt von á því að Ísland myndi spila á HM þannig að stór draumur sé að rætast við að vera viðstaddur það. 

„Ef ég myndi leggja saman tímann sem fer í að horfa á og fylgjast með fótbolta í eitthvað gagnlegt þá gæti ég ábyggilega verið kominn með þrjár doktorsgráður. Það er auðvitað algjör sturlun að Ísland sé að keppa á heimsmeistaramótinu. Svo er frekar óraunverulegt að Óttar Már, félagi minn, hafi náð tólf tímum í landinu áður en hann gleymdi vegabréfinu sínu einhversstaðar.“

Hvernig verður leikdagurinn hjá þeim félögum? „Ég vona að við tökum daginn snemma, förum á „fan zone“ nokkrum tímum fyrir leik þar sem við gírum okkur, öndum að okkur stemmingunn og mætum svo sperrtir á leik. Hvað gerist svo eftir leik ræðst á úrslitunum, að minnsta kosti hversu gaman verður.“

Fullt nafn: Dagur Skírnir Óðinsson.

Aldur: 31 árs.

Starf: Kennari í Menntaskólanum á Egilsstöðum og einn af þremur umsjónarmönnum Að austan á N4 í sumar.

Maki: Nei.

Börn: Það vona ég ekki.

Hvort ertu betri að skjóta með hægri eða vinstri? Innanfótar hægri allan daginn (vona ég sé ekki í yfirheyrslu á þeim forsendum að geta eitthvað í fótbolta).

Fallegustu búningar keppninnar? Vinir okkar í Nígeríu eru í flottustu búningunum í ár, Afríkuþjóðirnar kunna þetta samanber Kamerún fyrir nokkrum árum.

Ljótustu búningar keppninnar? Það er alveg ástæða fyrir því að ég er ekki í nýjasta eða næst nýjasta búningi Íslands.

Hverjir verða heimsmeistarar? Brasilía.

Kemur eitthvað á óvart við Rússlands og þá hvað? Allar flugurnar hver bauð þeim hingað? Ég vissi svo sem ekki við hverju mátti búast en á þremur dögum höfum við ekki orðið varir við neitt vesen, það kemur kannski á óvart miðað við paranoju margra í kringum mann.

Mikilvægasa mark sem þú hefur skorað? Vond spurning þar sem listinn er stuttur og ómerkilegur. Eina mark Þristsins í 7-1 tapi gegn uppeldisfélaginu UMFB er það ég er oftast minntur á.

Þitt mesta klúður á fótboltavellinum til þessa? Það var klúður að vera meiddur í fyrsta leik sumarsins, en vinir mínir tolleruðu mig upp í loft á húsi á kosninganótt.

Hver er uppáhalds maðurinn þinn í landsliðinu og af hverju? Heimir Hallgríms því hann er gamall Hattari.

Hvað varð um Tab Extra? Það er verið að vinna hörðum að kombakki á 20 ára afmæli félagsins 2022.

Hvað kanntu í rússnesku? Ég hef alla mína rússnesku kunnáttu úr Fóstbræðrum t.d., Russki Karamba. En, svo þýðir Na Zdorovye skál.

Syngur þú með þjóðsöngnum og kanntu textann? Èg kann hann nógu vel en oftast þegar að ég syng eitthvað er ég jafnfljótt beðinn um hætta því.

Hvernig fagnaðir þú þegar Hannes varði frá Messi? Man það ekki sökum geðshræringar.

Hvernig spáir þú leiknum í dag? 2-1 seiglu-sigur.











Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.