„Ég gat ekki breytt Indlandi en Indland breytti mér“

Þóra Guðmundsdóttir hefur um árabil rekið gistiheimili bæði í indversku borginni Kochi og Seyðisfirði. Tilviljanir urðu til þess að leigubílstjóri varð hennar helsti samstarfsmaður þar.

Sagan um veru Þóru í Kochi er rakin í viðtali við hana í dagblaðinu The Hindu í dag. Blaðið á sér merka sögu, hefur komið út daglega frá árinu 1889 og er í dag útbreiddasta dagblað Indlands á ensku.

Viðtalið við Þóru birtist undir fyrirsögninni „Ferðalangurinn sem eltir sólina.“ Þar er lagt út frá því að Þóru hafi þótt veturnir á Seyðisfirði, þar sem sólin hverfur í um fjóra mánuði, heldur langir og því farið að venja komur sínar til Indlands.

Hún hafi fyrst heimsótt Kerala-hérað á suðvestur Indlandi með vinkonu sinn árið 1998 og aftur ári síðar, þá í hóp fleiri Íslendinga. Hún hafi snemma hrifist af indversku handverki og fyrst komið til Kochi árið 2003 til að kaupa muni á forngripamarkaði og senda til Íslands í gamalt hús á Seyðisfirði sem hún var að gera upp. Í þeirri ferð urðu hins vegar atburðir sem áttu eftir að breyta lífi Þóru til frambúðar.

Hún hrökk við þegar bankað var á herbergi gistiheimilisins þar sem hún dvaldi. Fyrir utan stóð leigubílstjórinn Faizal Abdul Khader, sem kom til að skila farsíma Þóru sem hún hafði glatað undir sætinu í bílnum hans. Þóra vildi launa greiðann og bauð Faizal því í mat daginn eftir.

Það breytti lífi þeirra beggja því Faizal er í greininni lýst sem bæði einum besta vini Þóru og aðstoðarmanni í dag. Þau hafa unnið að fjölda verkefna saman, þannig veitti Faizal aðstoð við að finna muni á Indlandi fyrir framkvæmdir sem Þóra stóð í á Íslandi.

Faizal hjálpaði henni einnig til að finna sér hús í Kochi, sem hún breytti í lítið gistiheimili sem er í umsjá hans þegar Þóra er heima á Seyðisfirði þar sem hún rekur einnig gistiheimili. Hún hafi einnig myndað góð tengsl við Kochi-búa og hrifist af handverki þeirra enda prýðir það indverska gistiheimilið. „Ekkert af þessu hefði gengið upp án Faizal. Hann var tenging mín við heim sem ég vissi ekkert um,“ er haft eftir Þóru.

„Ég gerði mér fljótt grein fyrir því að ég gæti ekki breytt Indlandi. En ég gat leyft Indlandi að breyta mér,“ segir hún aðspurð um hví hún hafi keypt sér hús í Kochi og bætir því við að hún njóti þess besta bæði á Íslandi og Indlandi.

„Ísland er eyja á stærð við Kerala. Það hefur eldfjöll, há fjöll með jöklum og gríðarleg víðerni. Það er stórkostlega fallegt land en eins ólíkt og hugsast getur samanborið við hið græna og frjósama Kerala. Mér finnst gríðarlega vænt um báða staðina. Ég nýt þess besta af báðum stöðum.“

Mynd af vef Secret Garden.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.