„Ég fékk annað tækifæri“

„Það skiptir mjög miklu máli að allir fái þessa fræðslu til þess að bregðast rétt við og koma einstaklingum undir læknishendur um leið og fyrstu merki verða um áfall,“ segir Elías Geir Austmann, en samtökin Heilaheill ætla að vera með opinn fræðslu- og kynningarfund á Reyðarfirði á laugardaginn.


Fundurinn verður í safnaðarheimilinu á Reyðarfirði og stendur milli 11:00-13:00. Fyrirlesarar verða formaður Heilaheilla, Þórir Steingrímsson, séra Baldur Kristjánsson, Páll Árdal talsmaður samtakanna á Akureyri og Elías Geir.

Þann 2. apríl næstkomandi verða tvö ár frá því að Elías fékk heilablóðfall þegar hann var úti að skokka, en nánar má lesa um það hér. Það var hann sem fékk samtökin til að koma austur og halda fundinn.

„Ég er sjálfur í samtökunum og fær reglulega póst frá þeim um ýmsa viðburði á þeirra vegum. Þau eru mjög virk fyrir sunnan og mig langaði að vita hvort hægt væri að fá þau austur. Ég tók því bara upp símann og hringdi í formanninn og hann hélt að það væri nú lítið mál og nú er þetta að verða að veruleika. Þetta er oft ekki flóknara en þetta, snýst bara um að framkvæma, eins og í mínu tilfelli að hringja þetta eina símtal,“ segir Elías.

Vitum aldrei hver er næstur
Elías segir að fyrirlesturinn sé fyrir alla. „Hann snýr að sjúklingum, aðstandendum og almenningi. Það hefði til dæmis geta skipt sköpum fyrir mig að vera búinn að fá þessa fræðslu þegar ég fékk mitt áfall og þess vegna langar mig til þess að koma þessum upplýsingum út í samfélagið, því við vitum aldrei hver er næstur. Á hinn bóginn verður svo fjallað um það að þó svo fólk fái heilablóðfall er lífið alls ekki búið, það heldur áfram, en þó á annan hátt.“

Farinn að vinna á ný
Elías, sem vann hjá VHE áður en hann veiktist, hefur snúið aftur til vinnu að hluta. „Þegar ég byrjaði fór ég bara einu sinni í viku, tvo tíma í senn. Núna er ég að meðaltali þrjá daga í viku, í fimm til sex tíma í senn. Mér finnst ómetanlegt að vera kominn aftur í vinnu, en mér var falið það verkefni að halda utan um bíla- og tækjaflota fyrirtækisins, það er mitt að passa að öll tæki og tól séu í skoðunarhæfu ástandi.“

Miklar framfarir í hugrænni getu
Elías segist finna stöðugar framfarir á sinni andlegu heilsu. „Líkamlega getan virðist standa í stað en ég finn mikinn mun á andlegu heilsunni minni sem og hugrænni getu, svo sem aukinn fókus og einbeiting.

Líkamlega heilsan er eitthvað sem ég hef þurft að sætta mig við og þrátt fyrir að geta gengið hef ég oft lýst því á þann hátt að ég upplifi mig sem fanga í eigin líkama. Ég mun aldrei fara framar á skíði, synda 1000 metra eða keyra bíl. Ég sagði líka einhverntíman eftir áfall að minn æðsti draumur væri að skokka á ný, en því miður held ég að ég verði að sætta mig við að svo verður ekki.

Ég hef leyft mér að syrgja þennan veruleika, en ég held að það sé nauðsynlegt til þess að finna sátt. En, við erum öll að díla við eitthvað og þegar reynir á lærir maður líka að „liffa og njódda“ eins og rapparinn sagði. Maður lærir að njóta þess sem maður þó hefur og getur, en mitt aðal áhugamál er orðið að ferðast og ég hef náð að gera töluvert af því upp á síðkastið.“

Lífið er alls ekki sjálfsagt
Elías segir að hugleiðsla hafi reynst sér vel í bataferlinu. „Með hugleiðslunni finn ég mikinn innri frið, ég hugsa skýrar og hún færir mér mikla ró, kærleika og bjartsýni. Hugurinn ber mann hálfa leið segir máltækið og það er alveg satt, það er hægt að þjálfa upp ákveðið hugarfar. Verkefnið mitt er að láta mér líða vel í eigin skinni. Það eru forréttindi að hafa komist aftur heim og geta kysst börnin sín góða nótt á hverju kvöldi. Ég fékk annað tækifæri og mér finnst ég ekki eiga rétt á öðru en að setja hausinn undir mig og gera allt sem ég get. Lífið er mikilvægt, núna og alls ekki sjálfsagt.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.