„Ég er nánast að á hverjum degi“

Ríkharður Valtingojer, grafíklistamaður á Stöðvarfirði, hlaut á dögunum önnur verðlaun á stórri alþjóðlegri grafíkhátíð sem haldin er í Sofiu í Búlgaríu. Ríkharður sem er 83 ára gamall segir verðlaunin skipta sig miklu máli. 

Sýningin nefnist Lessedra World Art Print Annual –  Mini Print 2018 og opnar þann 21. júní og stendur til 30. september. Ríkharður á fjórar myndir á sýningunni. 

„Ég sendi inn fjögur verk, svokallaðar smámyndir, unnar með aðferð sem kallast Mezzotint, en það er sú tækni sem ég vinn hvað mest með um þessar mundir. Um er að ræða abstrakt verk en þó með vísun til náttúrunnar. Á hverju ári sendi ég verk á 4-6 alþjóðlegar grafíksýningar sem eru víðsvegar um heiminn. Á þessu ári er ég með verk á fjórum sýningum. Fyrir utan sýninguna í Búlgaríu er ég með verk á alþjóðlegum grafíksýningum í Cadaques og Barcelona á Spáni og í Tokyo í Japan. Ég er alltaf mjög ánægður ef ég kemst inn á þessar sýningar því allt að 1500-2000 manns sækja um en aðeins 200-400 komast inn,“ segir Ríkharður.

Verðlaunin skipta miklu máli

Hvaða máli skipta verðlaunin Ríkharð? „Það er náttúrulega enginn peningur í þessu, eða það held ég örugglega ekki. Verðlaunin skipta mig þó mjög miklu máli, enda er um að ræða rosalega stóra alþjóðlega sýningu sem allir grafíklistamenn vita af en þarna eru verk eftir 266 listamenn frá 39 löndum. Eftir að úrslitin voru tilkynnt hef ég fengið fjölda pósta með hamingjuóskum, alls staðar að úr heiminum,“ segir Ríkharður en þetta eru ekki hans fyrstu alþjóðlegu verðlaun. „Hin fékk ég á teiknisýningu í Milano fyrir tæpum 30 árum en þá vann ég einnig annað sætið þannig að ég á það fyrsta enn eftir.“ 

Já, Ríkharður lætur ekki deigann síga þó svo hann sé að verða 83 ára gamall og situr við flesta daga á vinnustofu sinni á Stöðvarfirði. „Ég er nánast að á hverjum degi. Ég er aðeins hægari, vinn ekki eins mikið magn og áður.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.