„Ég er kannski meðvitaðri um hve lífið er mikilvægt“

„Þegar ég var yngri var ég búin að lofa sjálfri mér því, að ef mamma myndi missa hárið aftur myndi ég gera það með henni,“ segir Berglind Eir Ásgeirsdóttir, 18 ára Reyðfirðingur, sem rakaði af sér hárið um helgina til styrktar Brakkasamtökunum á Íslandi.


„Ætli ég hafi ekki verið svona ellefu, tólf ára þegar ég ákvað þetta,“ segir Berglind Eir, en móðir hennar Iðunn Geirsdóttir greindist fyrst með brjóstakrabbamein árið 2003, þegar Berglind Eir var aðeins þriggja ára gömul. Talið er að um 5% til 10% brjóstakrabbameina séu ættgeng og erfist frá foreldri til barns.

„Það fæðast allir með þessi gen, BRCA1 og BRCA2, við fáum þau bæði frá föður og móður, en það er svo stökkbreyting í þessum genum sem eykur líkur á krabbameini. Þegar mamma var að greinast fyrst vissi hún að BRCA-genið væri í ættinni, en þá var ekki orðin þessi framþróun í erfðavísindum. Hún sóttist eftir því sjálf að fara í myndatöku og það var þá sem hún greindist fyrst, þá 31 ára gömul,“ segir Berglind Eir. 

Iðunn greindist svo aftur árið 2008. „Ég man ekki eftir fyrra skiptinu, enda aðeins þriggja ára. Ég man hins vegar eftir þegar hún greindist árið 2008, en þá missti hún hárið vegna lyfjameðferðar þar sem það krabbamein var alvarlegra.“

Árið 2012 greindist Iðunn svo með meinvörp í baki og hrygg sem hafa svo breiðst út, en í dag er hún í líknandi meðferð. „Þegar hún greindist þarna voru henni gefin þrjú ár, en hún er nú aldeilis búin að toppa það,“ segir Berglind Eir.

Kynna Brakkasamtökin í „góðgerðarviku“ Menntaskólans á Egilsstöðum
Bjarney Linda Heiðarsdóttir, vinkona og frænka Berglindar, lét einnig krúnuraka sig, Berglindi til stuðnings. Það gerðu þær báðar á hárgreiðslustofunni Exito hár á Reyðarfirði sem gaf þeim klippingarnar. 

„Við höfum alltaf verið vinkonur og fjölskylda Berglindar er mér mjög kær. Ég missti ömmu mína úr brjóstakrabbameini fyrir fjórum árum. Ég pældi svo í því hvort ég ætti að raka mig með Berglindi og fannst ég svo ekki hafa neitt val lengur og var alveg ákveðin í því,“ segir Bjarney Linda, sem lét hárið fjúka degi á eftir Berglindi Eir.

„Bjarney Linda er mín helsta klappstýra,“ segir Berglind Eir og hlær – en þær vinkonur ætla að standa fyrir viðburði í „góðgerðarviku“ Menntaskólans á Egilsstöðum eftir rúma viku, þar sem þær eru báðar við nám.

„Við ætlum að vera með kynningu á Brakkasamtökunum á Íslandi og sýna heimildarmyndina Þegar vitlaust er gefið, sem frumsýnd var um páskana, en í henni er nokkrum íslenskum konum sem hafa greinst með BRCA stökkbreytinguna fylgt eftir. Mér finnst fólk almennt ekki vita nógu mikið um þetta.“

Berglindi Eir dreymir um að safna pening til styrktar Brakkasamtökunum, en reiknisnúmer þeirra má sjá neðst í færslunni. „Ég vona að þetta nái til sem flestra, það væri gaman ef við í sveitinni gætum gert eitthvað til að hjálpa, en samtökin eru tiltölulega nýstofnuð. Mamma er mjög stolt af okkur vinkonunum og mér finnst gaman að geta gert eitthvað sem er mömmu kært og í minningu hennar.“

Hárið sem klippt var af þeim vinkonum verður sent til samtakanna Locks of Love og verður nýtt í hárkollugerð fyrir börn og ungmenni. „Það er vissulega dálítið undarlegt að vera ekki með hár og er enn að venjast. Þetta er samt mjög þægilegt og sparar mikinn tíma, þannig að ég mæli með þessu. Það taka þessu allir mjög vel og allir eru að klappa manni á kollinn.“

Ætlar að láta athuga sig um leið og hún má
Berglind segist ákveðin í því að láta athuga hvort hún beri genið um leið og hún má, en það er um tvítugt. „Það var ein í heimildamyndinni Þegar vitlaust er gefið sem orðaði þetta svo vel; að ef maður myndi vita að það væru 70% líkur á því að bremsurnar í bílnum myndu ekki virka á leiðinni í vinnuna myndi maður vilja gera eitthvað í því, sérstaklega ef að fjölskyldan væri í bílnum. Þetta fannst mér mjög góð samlíking og segja allt sem segja þarf.“

„Mér finnst ég bara ósköp venjuleg“
Berglind Eir segir þá reynslu að alast upp við þær aðstæður sem hún hefur gert vissulega hafa mótað sig.

„Margir segja að ég sé þroskaðri en jafnaldrar mínir. Mér hefur líka oft verið sagt að gleyma því ekki að vera krakki og taka ekki á mig öll þau hlutverk sem mamma gerði. Ég veit það ekki, mér finnst ég bara ósköp venjuleg, en er kannski meðvitaðri um hve lífið er mikilvægt, við verðum að nýta tímann vel, maður veit aldrei hvað gerist. Ég hugsa vel um sjálfa mig, reyki ekki og drekk ekki, held mig alveg frá því. Það er gott að búa í svo litlu samfélagi í svona aðstæðum, það passa allir upp á mann, bæði fjölskylda og vinir.“

Fyrir þá sem vilja styrka þetta frábæra málefni er styrktarsjóðurinn hér:
Kennitala: 571215-2250
Reikningsnúmer: 0331-26-2356

Efri ljósmynd: Ásgeir Metúsalemsson
Neðri ljósmynd: Helena Rán Stefánsdóttir

30724704 1469398713185683 7681680555154341888 n

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar