„Ég er ein af hópnum“

Wala Abu Libdeh kom til Íslands frá Palestínu tíu ára gömul. Hún hefur því hérlendis í tuttugu og fimm ár en hún kom tíu ára gömul til landsins. Hér lýsir hún því hvernig hún aðlagaðist íslensku samfélagi en árið 1995, árið sem Wala kom, voru aðrir tímar á Íslandi: Engar móttökuáætlanir, ekkert utanumhald með nemendum af erlendum uppruna og ekkert annað að gera en að bíta á jaxlinn og gera sitt besta.

„Ég kom ásamt systkinum mínum og móður í janúar 1995 og ég gat ekki byrjað strax í skóla vegna þess að það var verkfall,“ rifjar Wala upp en móðurbróðir hennar hafði áður flust til landsins.

Það var snjór yfir öllu þegar þau komu, eitthvað sem þau höfðu aldrei séð með berum augum, og þau fluttu heim til frændans. Bjuggu þar í þrjá mánuði áður en þau fluttu til Kópavogs. Í september gat hún loksins byrjað í skóla:

„Ég mætti bara eins og aðrir að hausti,“ segir hún. „Ég man að stofan var opin, þú gekkst inn og beiðst eftir kennaranum. Þegar hann svo kom stóð ég upp, eins og ég hélt að við ættum að gera, en það stóð enginn annar upp og ég skildi ekki hvers vegna! Kennarinn settist niður og sagði mér að setjast, að svona væri ekki gert á Íslandi. Þetta var mjög ólíkt því sem ég þekkti.

Í Palestínu var ég í stelpuskóla en hérna voru strákar með mér og ég var vanari miklu meiri aga. Í Palestínu mátti ég ekki horfa á kennarann og ég mátti ekki tala við hann nema með leyfi hans. Maður mátti eiginlega ekki neitt!“

Ekki endilega blessun að ganga vel með íslenskuna

Ekki var neitt um sérstakt utanumhald að ræða með erlendum nemendum og Wala þurfti að spjara sig verandi mállaus fyrstu mánuðina. „Ég vissi ekkert hvað var að gerast í tímum,“ segir hún. „Ég heyrði bara samnemendur mína tala og kinkaði kolli en sem betur fer var ég fljót að læra tungumálið.

Það reyndist ekki endilega blessun því um leið og skólinn sá hvað mér gekk vel að læra íslensku voru gerðar meiri kröfur á mig. Ég kom inn í skólann í fimmta bekk og kunni enga íslensku og strax í sjötta bekk var ætlast til þess að ég lærði dönsku! Og ég get ekki neitað því að það var svolítið erfitt.“

Fyrirmyndarnemandinn

Wala lagði mikið á sig til að ná árangri í skólanum og lýsir sjálfri sér sem „fyrirmyndarnemenda“ fyrstu tvö árin. „Skólinn ætlaðist til að ég yrði eins og aðrir nemendur, ég fór mjög sjaldan í sérkennslu, fór bara heim eftir skóla og lærði. Alltaf með þykka orðabók mér við hlið. Þýddi íslenskuna yfir á ensku og enskuna yfir á arabísku og reyndi svo að geta í eyðurnar ef þess þurfti. En eftir tvö ár nennti ég þessu ekki lengur,“ segir hún hreinskilningslega.

Hún segir að við hafi tekið tími þar sem hún slakaði á gagnvart skólanum og reyndi að lifa „eðlilegu“ lífi. „Ég vildi bara verða eins og allir hinir,“ segir hún. „Ég vildi fara út og leika mér, spila fótbolta og gera allt sem hinir krakkarnir voru að gera. Ég var ekki lengur fyrirmyndarnemandinn heldur óþekki krakkinn og nennti ekki að læra lengur. Eða ég nennti því svosem en það var bara svo fyrirhafnarsamt fyrir mig að læra það sem íslenskir jafnaldrar mínir áttu í engum vandræðum með.“

Wala útskrifaðist úr tíunda bekk, skráði sig í menntakóla en hætti fljótlega. „Ég ákvað bara að fara að vinna,“ segir hún. „Mig langaði í bílpróf og mig langaði að fara búa og gera eins og hinir sem og ég gerði. Ég fékk vinnu, keypti mér mína fyrstu íbúð og lífið hélt áfram með tilheyrandi djammi og djúsi. Ég hafði bara gaman af að lifa!

Ég vildi samt halda áfram í skóla, fór í kvöldskóla, og reyndi að ná einhverjum árangri. Þarna kom upp í mér einhver baráttumaður, sennilega Palestínumaðurinn! En meðfram þessu hélt ég áfram að vinna og lífið hélt áfram sinn vanagang.“

Helst til of rólegt

Árið 2006 og var sannkallað örlagaár í lífi Wölu. Þá flutti æskuvinkona hennar til Neskaupstaðar og bar staðnum góða sögu, að það væri gott að búa þarna. „Þarna átti allt að vera svo rólegt og notalegt þannig að ég ákvað bara að flytja með henni austur. Fyrstu þrír mánuðirnir voru afar rólegir, svo ekki sé meira sagt, mér fannst ekki neinn vera hérna og mig langaði eiginlega að fara aftur heim til mín til Kópavogs!“

En svo fór ekki og hún skráði sig í Verkmenntaskóla Austurlands í hárgreiðslu. Kláraði fyrstu þrjár annirnar og gekk vel. „Það var mikill léttir að sjá að ég gæti lært,“ segir hún. „Ég hefði hinsvegar þurft að fara suður til að klára námið þannig að ég hætti í skólanum og við tók annað í mínu lífi. Ég kynntist manni og átti barn. Stofnaði fjölskyldu og fór aftur að vinna.“

Árið 2017 var haft samband við Wölu vegna komu hælisleitanda til Reyðarfjarðar og henni var boðið að vera með nýbúakennslu. „Ég var mjög stressuð gagnvart þessu,“ segir hún. „En svo sló ég til og ákvað að láta á þetta reyna. Ég kynntist frábærum kennurum á Reyðarfirði og hugsaði með sjálfum mér að svona vildi ég verða.

Ég skráði mig í stuðningsfulltrúanám hjá VA, kláraði það og skráði mig svo í kennaranám við Háskólann á Akureyri. Þegar ég var yngri voru kennarar allt öðruvísi en þeir eru í dag og það hvarflaði ekki að mér að ég ætti eftir að verða kennari. En þegar ég byrjaði að vinna á Reyðarfirði sá ég hvernig kennari ég vildi verða. Ég er búin með fyrstu tvö árin og ef allt fer vel útskrifast ég næsta vor.“

Týnast í framhaldsskólanum

Þegar Wala lítur til baka segir hún að heilt yfir gangi nemendum af erlendum uppruna vel í grunnskóla en svo „týnist“ þau í framhaldsskólunum og það sé erfitt fyrir þau að halda sama námshraða og aðrir nemendur.

„Það þarf að einfalda námsefnið fyrir erlenda nemendur,“ segir hún. „Það á að gera sömu kröfur en það þarf að matreiða námsefnið á annan hátt. Þetta er svo erfitt þegar maður hefur ekki íslensku að móðurmáli og þetta krefst svo mikils af nemendum að hættan er sú að þeir gefist upp. Einfaldara námsefni gæti gert mikið fyrir okkur sem ekki höfum íslensku að móðurmáli,“ segir hún og heldur áfram:

„Mér hefur alltaf fundist ég vera ein af hópnum,“ segir Wala. „Ég tel mig vera Íslending, er gift Íslendingi og á þrjú börn. Og ég er ekki hrædd við að tala við fólk. Ég tala við alla. Ég skil hins vegar alveg þegar krakkar – og fullorðnir - koma hingað og eiga erfitt með að aðlagast því þetta er erfitt og þetta tekur á eins og skólaganga mín sýnir.

Við þurfum að leggja meira á okkur en aðrir til að ná sama árangri og innfæddir. Einfaldara námsefni myndi sýna viðleitni samfélagsins til að aðlagast innflytjendum en það er einmitt lykillinn að góðri sambúð fólks af ólíkum uppruna. Þetta snýst ekki bara um að innflytjendur aðlagist íslensku samfélagi. Þetta snýst líka um að samfélagið aðlagist okkur.“

Útgáfa Austurgluggans í síðustu viku var samstarfsverkefni Austurbrúar og Útgáfufélags Austurlands. Blaðið var tileinkað fólki er erlendum uppruna á Austurlandi. Það var gefið út á ensku til að ná til sem flestra lesenda sem ekki hafa íslensku að móðurmáli. Íslenskar útgáfur greinanna birtast á Austurfrétt.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.