„Ég ætla að taka þátt og vera til“

„Að koma þarna upp og finna fyrir orkunni í salnum var hrein geggjun. Mér hefur heldur aldrei leiðst og það var ómetanlegt að fá að þakka fyrir sig með þessum hætti,“ segir Elías Geir Eymundsson, sem kom öllum að óvörum þegar hann steig á svið á þorrabótinu á Reyðarfirði á bóndadaginn og þakkaði samfélaginu veittan stuðning í erfiðum veikindum sínum á síðasta ári.



Elías Geir, eða Elli, var nýorðinn fertugur þegar hann fór út að hlaupa í apríl í fyrra. Hann var ekki nema rétt kominn af stað þegar hann datt niður sökum heilablóðfalls í hægra heilahveli. Var honum haldið sofandi á gjörgæsludeild Landspítalans í tvær vikur og gekk svo í gegnum flóknar aðgerðir á höfði þar sem höfuðkúpan var opnuð og hluta hennar lyft upp til þess að tappa af bjúgi og minnka þrýsting. Við tók svo margra mánaða endurhæfing á Grensásdeildinni í Reykjavík.

Meðan hann lá inni á spítala stóðu vinir hans fyrir fjölmennum „hreyfi-viðburðum“ í maí, bæði á Reyðarfirði og í Reykjavík, þar sem fólk kom saman og gekk, hljóp eða hjólaði til styrktar Ella. Umfjöllun um þetta má sjá hér.


Vildi gera eitthvað til að þakka samfélaginu

„Það var búið að sækja stíft á mig með hvaða hætti ég gæti mögulega þakkað samfélaginu þann ómetanlega stuðning sem ég fann fyrir meðan ég lá inni á Grensás. Hugmyndin um að mæta sjálfur á blót, þar sem ég stæði á eigin fótum og þakkaði, var búin að koma til mín áður. En mig langaði til þess að gera eitthvað meira. Svarið var að fá Jón Jónsson til þess að koma austur á blót og syngja baráttulagið mitt, Gefðu allt sem þú átt. Ég bar þetta undir Helga Seljan vin minn en hann þekkir Jón ágætlega. Sama dag og ég gerði það var eitthvað óspennandi í matinn á Grensás þannig ég hringdi í Helga og bað hann um að færa mér hamborgara. Það var alveg sjálfsagt, eins og allt annað hjá Helga. Ég veit svo ekki fyrri til en Jón Jónsson mætir með borgarann og Helgi á eftir, þannig að segja má að þetta hafi verið sannkölluð stjörnumáltíð.“ Skemmst er frá því að segja að Jón tók bón Ella vel og tók ekkert fyrir viðvikið.


„Textinn talaði svo til mín“

En af hverju er Gefðu allt sem þú átt baráttulagið hans Ella? „Meðan ég lá inni á taugadeildinni og var tiltölulega nýbúinn í stóru aðgerðinni heyrði ég þetta lag. Ég sagði strax við Rögnu, konuna mína, að þetta væri baráttulagið mitt, textinn talaði svo til mín. Ég náði í lagið á Spotify og alltaf þegar mig vantaði auka „búst“ þá hugsaði ég til samfélagsins míns og spilaði lagið, það gaf mér alltaf eitthvað extra.“


„Ef mig hefur einhvern tímann langað til að fella tár ...“

Heyra mátti saumnál detta og víða voru tár á hvarmi þegar Elli steig á sviðið. Hann hefur margoft tekið þátt í leiksýningum á Reyðarfirði og segist hafa verið með leikhúsfiðring í maganum þegar hann steig á sviðið.

„Ef mig hefur einhvern tímann langað að fella tár, þá var það þarna, að finna alla þessa jákvæðu strauma og velvild var algerlega ólýsanlegt. Þegar ég var að fara heim stoppuðu mig heilmargir og flestir felldu tár. Allt í einu var maður orðinn fyrirmynd með því að standa upp og berjast. Það gaf mér mikið og minnir mig á að mig langar í enn meira – þetta gaf mér enn meiri staðfestu að standa með sjálfum mér og halda áfram að gefa allt sem ég á.“


„Ég varð algjörlega #teamElli“

Jón Jónsson segist hafa orðið heillaður af jákvæðni og baráttuanda Ella þegar þeir hittust fyrst á Grensás á haustdögum. „Ég hélt að þetta yrði bara létt innlit, „high five“ og bless. En ég heillaðist af karakternum hans Ella og þegar hann var búinn að segja mér sína sögu, sem er auðvitað alveg mögnuð, þá var ekki aftur snúið, ég varð algjörlega #teamElli. Það var mikill heiður að fá að koma austur og taka lagið með Ella sjálfum og ekki skemmdi fyrir að heyra hvern einasta gest á þorrablótinu taka vel undir, algerlega magnað,“ segir Jón.


Félagar á blóti„Hvert augnablik er dýrmætt í dag“

Elli er nú kominn austur og vinnur að því að koma sér út í lífið aftur. Hann segir að eðlilega skiptist á skin og skúrir í hans uppbyggingu. „Ég held að þannig sé það hjá öllum sem verða fyrir áfalli sem þessu. Staða mín í dag er sú að ég get gengið um og fyrir mér er það heilmikið frelsi frá því að vera í hjólastól. Þó svo ég sé ekki með neina hreyfigetu í vinstri hendinni þá hugsa ég lítið um það, ég reyni frekar að setja fókusinn á það sem ég get og hef frekar en hitt.“

Elli segist meta lífið enn frekar í dag en hann gerði. „Ég held að flestir sem lenda í einhverju svona verði þakklátari fyrir það sem þeir eiga. Eins og fyrir mér, þá snýst líf mitt núna um að njóta þeirrar hamingju sem ég á, daglegra samskipta við börnin mín og maka. Einnig að vera í góðu sambandi við vini og samfélagið allt. Svo eru það litlu hlutirnir eins og veðrið, umhverfið og góður kaffibolli, það þarf ekki meira, hvert augnablik er dýrmætt í dag. Þetta er líklega klisja en svoleiðis er það bara – maður hættir að vera alltaf að hugsa fram í tímann, hamingjan er hér og nú.

Ég þarf stundum að minna mig á hversu heppinn ég er að vera á lífi og hversu langt ég hef komist í mínum bata, ég sé ekki alltaf hvað hefur áorkast, finnst ég bara stundum vera að stappa í sama farinu, en þetta hefur kennt mér mikla þolinmæði og þakklæti.“


Tíminn einn leiðir batann í ljós

Elli segir að tíminn einn geti leitt það í ljós hvernig bati hans verður. „Læknarnir vilja meina að ég muni ekki þurfa að ganga við staf eða spelku til frambúðar, eins og ég geri í dag. Hugsanlega fái ég mátt í hendina og geti þá nýtt hana sem stuðningshendi en ekki í fínhreyfingar. Eins með sjónina en sjónræna úrvinnslan mín er slæm og kallast það gaumstol á fagmálinu, ég má til dæmis ekki keyra bíl í dag.

Ég var mjög heppinn að halda talinu en fólk getur misst það við slík áföll. Þegar ég vaknaði fyrst gat ég ekkert talað, tjáði mig með því að setja þumalinn upp eða niður eftir því hvort ég var að segja já eða nei. Á sjötta eða sjöunda degi byrjaði ég aftur að tala og hef ekki þagnað síðan, heilinn er svo merkilegt fyrirbæri.

Þróunin í læknavísindunum er líka svo hröð, hver veit nema það verði komið eitthvað nýtt eftir tvö ár sem hjálpar mér og þá er ég tilbúinn í hvað sem er.“


Langar að geta skokkað á ný

Elli setti sér stórt langtímamarkmið þegar hann byrjaði í sjúkraþjálfun eftir að hann kom aftur austur. „Ég sagði þjálfaranum mínum að mig langaði til að geta skokkað aftur. Hann sagði að við yrðum nú bara að sjá til með það. Ég veit vel að það er erfitt, en það er gott að hafa stór markmið og svo önnur smærri að þeim. En þangað stefni ég og ætla að halda mig við það.“

Viðtalið í heild sinni má lesa í nýjasta Austurglugganum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.