Efnir til pólskrar kvikmyndahátíðar á Eskifirði

Sex pólskar kvikmyndir verða sýndar á kvikmyndahátíð í Valhöll á Eskifirði um helgina. Stjórnandi hátíðarinnar segist hlakka til að sjá viðbrögð Íslendinga og annarra við pólsku myndunum.

„Ég fékk hugmyndina þegar ég bjó á Eskifirði síðasta vetur því ég frétti að þar væri kvikmyndasalur. Síðan hitti ég fólk á Höfn, þar sem ég var í skóla og við ræddum um að okkur langaði að gera eitthvað fyrir pólska samfélagið, sem er líka stórt þar. Þess vegna fór ég af stað í að sækja um styrki,“ segir Olga Jabłońska, stjórnandi hátíðarinnar sem haldin er í samvinnu við Menningarstofu Fjarðabyggðar.

Olga kom fyrst til Íslands árið 2013 og starfaði þá við kvikmyndahátíðina RIFF. Hún hefur að mestu búið hérlendis frá 2016, aðallega á Austurlandi. Hún er í dag á Fáskrúðsfirði en hefur einnig verið á Eskifirði og Seyðisfirði.

Hún er útskrifuð úr kvikmyndaskólanum í Lodz, stærsta og áhrifamesta kvikmyndagerðarskóla Póllands. Meðal fyrrum nema þar er Roman Polanski, sem er í hópi þekktari leikstjóra sögunnar. Olga starfaði við dreifingu og framleiðslu kvikmynda þar til hún flutti hingað til lands.

Myndir eftir leikstjóra frá Lodz

Myndir í leikstjórn tveggja fyrrum nemenda í Lodz eru á dagskránni um helgina. Hátíðin verður sett á morgun, föstudag, með sýningu myndarinnar Wolka eftir Árna Ólaf Ásgeirsson, sem gerði bæði myndirnar Brim og Blóðbönd. Wolka gerist að hluta til hér á landi.

„Hún var frumsýnd á RIFF í haust. Ég er mjög ánægð með að geta sýnt hana því hún hefur ekki áður verið sýnd á Austurlandi. Ég þekkti Árna aðeins, hafði starfað með honum að vinnustofu sem ég hélt þegar ég vann fyrir RIFF 2013,“ segir Olga.

Hin er Sweat, sýnd á laugardagskvöld eftir Magnus van Horn, sem fæddist í Svíþjóð en lærði í Póllandi og býr þar nú. „Mig langaði að sýna hana því hún var á kvikmyndahátíðinni í Cannes í fyrra. Mér finnst það mjög góð mynd. Við Magnus vorum í tímanum á svipuðum tíma þótt við kynntumst ekki fyrr en síðar,“ segir Olga.

Innlyksa Pólverji

Að auki eru á hátíðinni stuttmyndin Seal story sem fjallar um Pólverja sem verður innlyksa á Íslandi og býr einn á hóteli í Covid-faraldrinum. „Hún er í raun heimildamynd, tekin á farsíma og unnin í gegnum netið milli söguhetjunnar og leikstjórans,“ segir Olga.

Önnur heimildamynd á hátíðinni heitir Art of Freedom. „Það er frábær mynd um pólska fjallaklifrara sem voru þeir bestu í heiminum á níunda áratugnum.“

Mynd sem lifir í pólskri þjóðarsál

Á laugardag verður fjölskyldumyndin Tarapaty 2 sýnd en síðasta mynd á dagskrá á sunnudag er Rejs, eða Skemmtisiglingin. „Hún er ein af þessum sígildu gamanmyndum sem við Pólverjar eigum. Fólk talar stundum sín í milli í frösum úr henni og báturinn sem við notum á auglýsingu hátíðarinnar er úr henni, á siglingu framhjá Hólmatindinum.

Ég hlakka mikið til að sjá viðbrögð Íslendinga og annarra gesta en Pólverja við henni. Pólverjum finnst hún drepfyndin og mig langar að vita hvort brandarnir í henni séu alþjóðlegir eða tengist þeim tíðaranda sem hún var gerð í,“ segir Olga.

Myndin var gerð árið 1971 á þeim tíma sem kommúnistastjórn var í Póllandi. „Pólsk kvikmyndagerð átti erfitt uppdráttar eftir síðari heimsstyrjöldina því Þjóðverjar og Rússar höfðu eyðilagt eða tekið allan búnaðinn. Þess vegna var það eitt af markmiðum skólans í Lodz að safna saman búnaði og varðveita hefðina.

Miklum fjármunum var veitt í kvikmyndagerð á tímum kommúnismans en kvikmyndagerðarfólk þurfti að þola ritskoðun. Það mátti ekki sýna eða segja hvað sem er. Þá reyndi á sköpunargáfuna til að geta komið hlutunum á framfæri án þess að ritskoðararnir tækju eftir því.“

Pólskt bíónammi

Aðgangur að sýningunum er ókeypis og eru allar myndirnar sýndar með enskum textum. Pólskt nammi verður á boðstólunum fyrir hverja sýningu auk þess sem sérstakur matseðill með pólskum réttum verður á Hildibrand hóteli í Neskaupstað í tilefni hátíðarinnar.

„Þegar ég setti saman dagskrána vildi ég hafa fjölbreytni og sýna að pólskar kvikmyndir eru góðar því við búum yfir mikilli hefð. Mig langaði að sýna Íslendingum að Pólland er áhugaverður staður fyrir kvikmyndagerðarfólk.“

Wolka verður sýnd klukkan 19:00 á morgun og Seal story 20:40. Tarapaty 2 klukkan 12:00 á laugardag en Swat 18:00. Á sunnudag er Art of Freedom klukkan 15:00 og Rejs 17:00.









Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.