„Draumur að gefa út disk með íslenskum þjóðlögum“

Þau Hlín Pétursdóttir Behrens sópransöngkona og söngkennari á Héraði og Ögmundur Þór Jóhannesson gítarleikari mynda dúettinn Duo Fjara. Þau tóku upp sína fyrstu plötu í september síðastliðnum. Á plötunni, sem heitir „Náttsöngur“ er að finna íslenska tónlist, óþekktar perlur, þjóðlög, sönglög og nýjar tónsmíðar.

  

Þau hófu samstarf á vorið 2019 og komu fram á tónleikum í víðs vegar Austurlandi og um land allt. Fljótlega kom upp sú hugmynd að taka upp geisladisk. Þau drifu sig af stað og byrjuðu að vinna við útgáfu geisladisksins. Nú standa þau fyrir söfnun á Karolinafund til að klára fjarmagna upptökurnar. 

Samhljómur söngsins og gítarsins sýnir tónlistina í nýju ljósi

„Við Ögmundur vorum að plana tónleikahald síðasta sumar. Þá kom til tals að hann ætlaði að sækja um listamannalaun til að vinna við nýja útsetningu á íslenskum þjóðlögum og mig hefur lengi langað að gefa út disk einmitt með íslenskum þjóðlögum. Svo við hófumst bara handa við að finna lög,“ segir Hlín

Hún bætir við að það sé eitthvað við samhljóm söngraddarinnar og gítarsins sem sýnir tónlistina í nýju ljósi. Því mætast í verkefnavalinu gamli og nýi tíminn. „Þjóðlögin læðast inn í vitundina og bera tær, sígild minni, birta það sem við þekkjum nú þegar og getum ekki gleymt frekar en sögunum okkar og landslaginu sem þær geymir," útskýrir Hlín

Hlín fluttist upp á Hérað í byrjun árs 2019 til að kenna söng. Fljótlega frétti hún af Stúdíó Síló á Stöðvafirði. 

„Þetta er alveg svakalega flott hljóðver en hentar kannski ekki fyrir upptöku á klassískum söng. Því ákváðum við að taka upp sönginn í tónleikasalnum þeirra. Það er ofboðslega fallegur hljómburður. Okkur finnst því skemmtilegt og við hæfi að halda útgáfutónleikana þar.“ segir hún.

Þekkt og óþekkt þjóðlög

Þegar kom að því að velja lögin segir hún að þau hafi byrjað á þjóðlögum, Þau fundu meðal annars þjóðlagaútsetningar eftir John A. Speight sem hafa ekki verið teknar upp áður.

„Svo fórum við að ræða uppáhalds tónskáldin og fundum lög með Þuríði Jóns sem hafa ekki verið mikið tekið né heldur tekin upp. Síðan völdum við lög eftir Jórunni viðar, Atla Heimi Sveinsyni, Tryggva M. Baldvinsson meðal annars,“ segir Hlín

„Við vildum hafa hreint íslenskt efni á þessari plötu. Ég hef nefnilega tekið eftir því þegar hef sungið á á tónleikum erlendis að fólk er mjög hrifið af íslensku lögunum og okkur langaði að þessi íslenska áhersla yrði á þessari plötu. Hver veit hvað við gerum á þeirri næstu,“ segir Hlín að lokum. 

 

Hlín og Ögmundur. Myndin er aðsend. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.