„Draumastaðan er bara að vera sátt við sjálfa mig“

„Ég er átfíkill og kringum áfölli í lífi mínu hef ég út í eitt og helst eitthvað nógu sætt,“ segir Djúpavogsbúinn Jóna Kristín Sigurðardóttir sem tekst nú á við vandann af festu fyrir opnum tjöldum samfélagsmiðla, sér og öðrum í sömu stöðu til stuðnings. Jóna Kristín var í opnuviðtali Austurgluggans fyrir stuttu.


Jóna Kristín segist lengi hafa átt í óheilbrigðu sambandi við mat og áfall sem hún varð fyrir kringum fermingu hafi dregið sjálfsmyndina niður og upp frá því hafi hún byrjað í strangri megrun, en þegar Jóna Kristín var 24 ára gömul var hún komin með anorexíu. „Ég barðist í því ferli í tíu ár en ýmsir fylgikvillar eru með sjúkdómnum á borð við ofsakvíða og fleira; allt kerfið ruglast.“

Jóna Kristín segir að margir samliggjandi þættir hafi orðið til þess að hún hafði betur í baráttunni við anorexíuna. „Í kringum fertugt fór ég svo að þyngjast fyrir alvöru. Þyngst var ég 102 kíló en þó svo að öðrum þyki það kannski ekkert svakalegt fannst mér það en ég var vön að vera alltaf í kringum 60 kíló. Ég er átfíkill og kringum áföllin mín borðaði ég út í eitt, helst eitthvað nógu sætt. Ég var kannski ekkert svöng en alltaf að leita að einhverju til að narta í. Það er hægt að benda á allar tegundir megrunarlyfja, ég er búin að prófa þær allar eins og flestir í minni stöðu. Í dag veit ég að ekkert af þeim virkar og mikil hætta er á því að enda í verra ástandi en áður.“

Árið 2015 kviknaði á perunni
Jóna Kristín hefur aldrei verið þyngri en árið 2015 þegar hún tók ákvörðun um að snúa við blaðinu. „Fyrir algera tilviljun fór ég að lesa pistla eftir Sólveigu Sigurðardóttur, sem sjálf var matarfíkill, en náði tökum á sinni heilsu með aðstoð frá Heilsuborg. Ég hugsaði með mér að fyrst að hún hafi komist út úr þessu af sjálfsdáðum þá gæti ég það líka. Það var þarna sem kviknaði á perunni.“

Jóna Kristín segir að á þessum tíma hafi ástand sitt verið orðið afar slæmt á alla vegu. „Ég svaf illa, var ekki að höndla eitt eða neitt og var alltaf pirruð og ómöguleg. Jónína Óskarsdóttir hjúkrunarfræðingur hjálpaði mér mikið en ég tók próf hjá henni þar sem ég sprengdi alla streituskala og fór í samtalsmeðferð hjá henni í kjölfarið sem bjargaði mér alveg. Ég byrjaði að hreyfa mig og fór til einkaþjálfara sem ég er enn hjá. Í dag er hreyfing mér lífsnauðsynleg og hluti af minni daglegu rútínu – ekki aðeins til að vinna á þyngdinni, heldur einnig streitunni.“

„Ég veit að þetta er langhlaup“
Eftir alvarleg veikindi í kjölfar svuntuaðgerðar er Jóna Kristín nú aftur komin á rétt ról, en hún fékk slæma sýkingu eftir aðgerð sem varð til þess að hún mátti ekki hreyfa sig í fimm mánuði og þyngdist því aftur.

„Ég mátti fara aftur af stað um áramót. Mér leið samt mjög illa, það leggst alltaf á sálina á mér þegar ég þyngist og ég er lengi að ná mér upp. Læknirinn hvatti mig til þess að taka út sem mest af sykri og brauðmeti, þó ekki væri nema í nokkra daga til að prufa. Ég hef haldið mig við það síðan og losað mig við 14 kíló á þessu ári með breyttu mataræði og hreyfingu. Ég viðurkenni að þetta reyndist mér erfitt til að byrja með og það var óneitanlega undarlegt að fá mér ekki páskaegg þar sem ég er alger súkkulaðifíkill. Ég ætla að forðast það að borða sælgæti það sem eftir er. En ég ætla alveg að fá mér kökusneið við viss tilefni og veit að ég get alveg stjórnað því.“

Jóna Kristín hefur valið þá leið að tala opinskátt um baráttu sína við matarfíknina. „Ég skrifa og birti myndir á Facebook, bæði af því hvernig mér gengur og ég gerði það líka í veikindunum. Mér finnst það stuðningur, aðhald og setur á mig ákveðna pressu. Einnig hef ég fengið mikið af skilaboðum frá fólki í sömu stöðu og við peppum hvert annað upp.“

Ég veit að þetta er langhlaup og ég ætla að gefa mér góðan tíma. Ég held að ég geti þetta, ég trúi því. Árið 2009 var ég 102 kíló, í fatastærð 48, eða 2XL. Í dag er ég komin niður um tíu fatastærðir og get keypt mér þau föt sem mig langar í. Ég er ekki að einblína á einhverja kílóatölu, ég vil bara að mér líði vel í eigin skinni og að andlega hliðin sé í lagi en það er mitt meginverkefni að passa að hleypa streitunni ekki aftur inn. Ef hausinn er í lagi, þá virkar allt hitt.“

Jóna Kristín segist ekki setja sér nein langtímamarkmið. „Draumastaðan er bara að vera sátt við sjálfa mig en það er undir mér sjálfri komið því enginn getur hjálpað þér nema þú sjálfur og þú þarft að vilja það. Að sjálfsögðu vil ég svo fyrst og síðast vera góð amma og mamma og eiga gott líf með mínu fólki.“Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar