„Dramað er á allt öðru plani en maður á að venjast“

Héraðsbúinn Vigdís Diljá Óskarsdóttir hefur hafið útgáfu á hlaðvarpsþáttum um bandarísku sjónvarpsþættina um Piparsveinin eða „The Bachelor“. Hún segir ákveðinn fáránleika að bakvið þáttunum sem sé það sem geri þá svo áhugaverða umfjöllunar.

„Það er gríðarlegur áhugi á þáttunum hér á landi, ég veit um mjög marga hópa sem hittast vikulega og horfa saman á þáttinn og ræða hann. Ég er í svona Bachelorklúbb og þetta eru algjörlega heilagar stundir hjá okkur í hverri viku. Í einhverjum skilningi er þetta kannski bókaklúbbur nútímans,” segir Vigdís Diljá sem nefnir þætti sína Piparinn.

Vigdís Diljá, sem er fædd og uppalin í Fellabæ, hafði lengi gengið með þá hugmynd að gera hlaðvarp um Bachelorþættina þegar hún lét verða að því. „Ég vissi að ef ég myndi ekki drífa í þessu, myndi ég alltaf sjá eftir því. Maður má eiginlega ekki hugsa hlutina til enda, þá nennir maður aldrei að byrja.

Það er svo ótrúlega margt sem þarf að ræða eftir hvern þátt, það gerist svo mikið í hverjum þætti og dramað er á allt á öðru plani en maður á að venjast.”

Skapa líflegar umræður

Hún segir nokkra íslenska hópa á Facebook snúast eingöngu um þættina. Í þeim stærsta, Bachelor Beibs, séu tæplega átta þúsund meðlimir. „Þar myndast oft mjög líflegar umræður svo ég vissi að ef ég myndi gera hlaðvarp um þessa þætti þá hefði ég alltaf nóg um að tala, það væru margir sem myndu vilja hlusta og ég gæti alltaf fengið gesti til mín að ræða þættina,” segir Vigdís Diljá.

Um hvað fjallar hlaðvarp um Bachelor? „Bara nákvæmlega það sem nafnið gefur til kynna,” segir Vigdís Diljá og hlær. „Bara allt sem viðkemur Bachelor. Núna á meðan Bachelorette er í sýningu gef ég út vikulega þætti þar sem ég ræði við gesti um þáttinn sem sýndur var þá vikuna; hvað okkur fannst, hvað við höldum að gerist næst og svo framvegis. Auk þess gef ég út þætti um ákveðna atburði eða fólk sem hafur tekið þátt í fyrri seríum. Það er alltaf nóg að tala um”

Vigdís segir hlaðvarpinu hafa verið vel tekið meðal sístækkandi aðdáendahópos Bahcelor-þáttanna. „Viðtökurnar hafa verið alveg ótrúlegar. Ég er búin að heyra frá mörgum sem byrjuðu að horfa á þættina, af því að þau hlustuðu á hlaðvarpið og mér finnst það alveg frábært. Ég vissi að það væri stór hópur sem hefði áhuga á þessu en mig grunaði ekki að það myndu svona margir hlusta eins og raun ber vitni.” Vigdís Diljá er þakklát fyrir hlustunina, „ég tek því bara sem hvatningu til að gera meira og gera betur.”

Fáránleikinn gerir þetta áhugavert

Vigdís segir dramað í sjónvarpsþáttunum vera það sem dregur fólk að þeim. „Þetta er náttúrlega í grunninn algjörlega fáránleg pæling og þess vegna er svo gaman að fylgjast með þessu.

Að leyfa milljónum manns um allan heim að fylgjast með þegar þú, ásamt 30 öðrum mönnum, reynir að sigra hug og hjarta ókunnugrar konu með því að fara á hópstefnumót, keppa í þrautum og rembast við að fá tíma með henni. Allt í þeirri von um að standa eftir sem sigurvegari og fá að biðja um hönd hennar í hjónaband.

Einhvern veginn fer manni samt alltaf að þykja vænt um einhverja keppendur á meðan maður þolir ekki aðra. Það er eitthvað ávanabindandi við að fá að komast svona nálægt fólki, sjá það upplifa erfiðleika og ást og allt í bland. Rífast og kyssast og vera sent heim fyrirvaralaust. Það er erfitt að útskýra þetta fyrir þeim sem eru ekki á Bachelorlestinni en þeir sem eru um borð skilja nákvæmlega hvað ég á við.”

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.