Dansandi sjúkraflutningafólk á Egilsstöðum vekur lukku

Myndband af dansandi sjúkraflutningahópi hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands á Egilsstöðum hefur vakið mikla lukku eftir að það birtist á samfélagsmiðlum í gær. Hjúkrunarfræðingur úr hópnum segir nauðsynlegt að finna leiðir til að létta lundina á erfiðum tímum.

„Við höfum séð þetta víða að heilbrigðisstarfsfólk er að lyfta sér upp við erfiðar aðstæður og við gerðum það líka,“ segir Guðbjörg Björnsdóttir, hjúkrunarfræðingur og einn af fimm dönsurum úr hópi starfandi sjúkraflutningafólks á Egilsstöðum.

Myndband sem hópurinn gerði í gær og setti á samfélagsmiðla hefur á stuttum tíma fengið yfir eitt þúsund áhorf og farið víða. „Við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð um hvað við séum glæsilegur hópur,“ segir Guðbjörg, aðspurð um viðbrögð við myndbandinu.

Í myndbandinu tekur hópurinn nokkur spor við lagið „Baby shark“. „Við horfum á krakka dansa við lagið á YouTube og hermdum nokkurn vegin eftir því sem við gerðum. Nema endirinn er frumsaminn, okkur fannst hann tilvalinn með tilliti til starfs okkar.

Skemmtilegast er að þetta tók enga stund og æfingin var engin. Þegar við horfðum á upptökuna sáum við hvað við vorum samstíga. Við erum vön að vera í sjúkraflutningagöllunum en þetta varð aðeins erfiðra með grímurnar.“

Finna leiðir til að efla andann

Heilbrigðisstarfsmenn á Egilsstöðum virðast frekar danselskir, því um helgina tók hluti þessa sama hjúkrunarliðs, þá að störfum við skimum fyrir covid-19 veirunni, upp annað dansmyndband sem fór í dreifingu.

„Við hér á Egilsstöðum, eins og annars staðar, höfum þurft að gjörbylta starfsemi heilsugæslunnar á örskömmum tíma. Hér hefur allt verið hólfað niður sem leiðir til þess að við erum einangraðri í vinunni en áður.

Það þarf að létta sér upp tilveruna á þessum tímum og við reynum að finna leiðir til að hafa gaman, þótt við tökum starfið okkar jafn alvarlega. Svona eflir hópinn.“

Spurning er síðan hvernig myndbandið ávaxtast í framtíðinni. Í hópi íbúa Fljótsdalshéraðs á Facebook er nefnilega komin fram áskorun á lögregluþjóna staðarins að taka við keflinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.