Daníel Geir nýr framkvæmdastjóri Franskra daga

Daníel Geir Moritz hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri bæjarhátíðarinnar Franskra daga á Fáskrúðsfirði. Daníel Geir segist hlakka til vinnunnar sem framundan er við að undirbúa hátíð sumarsins.

„Mamma er Fáskrúðsfirðingur og pabbi hálfur Fáskrúðsfirðingur, þótt hann sé frá Norðfirði þannig ég var alinn upp á Neistaflugi og Frönskum dögum,“ segir Daníel Geir.

Tíu ár er síðan síðast var sérstakur framkvæmdastjóri hátíðarinnar en sérstök stjórn hefur haldið utan um hana síðustu ár.

Daníel Geir þekkir nokkuð vel til hátíðarinnar, segist hafa mætt á fleiri heldur en færri auk þess sem hann samdi lag hennar árið 2008 og stjórnaði þá fjöldasöng.

„Mig hefur alltaf dreymt um að skipuleggja bæjarhátíð. Mér finnst gaman að skipuleggja viðburði og setjast niður með fólki og láta hugann reika um hvernig gera megi hlutina betur.“

Þegar eru komnar á loft hugmyndir um hátíð sumarsins en Daníel Geir segist hafa góðan grunn til að byggja á. „Það er afar gaman hvernig Fáskrúðsfirðingar tala um Franska daga, þeir eru stoltir af bæjarhátíðinni sinni. Það er ekki víða á landinu sem haldið er upp á söguna á sama hátt og það er hátíðlegt hvernig haldið er í vinatengslin við Graveline.

Ég er þegar kominn með fjölmörg járn í eldinn. Ég sé fyrir mér að Franskir dagar geti verið opnari fyrir að vera líka listahátíð og ég hefði hugsað mér að gefa í varðandi skemmtikrafta sem fengnir eru að. Ég vil líka leggja meiri áherslu á að Fáskrúðsfirðingar hvetji brottflutta og aðra gesti til að koma í heimsókn.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.