Covid-19 föndur: Kórónuveiran hekluð

Þegar fleiri og fleiri þurfa að fara í sóttkví og samkomubannið skerðir lífsgæði fólks er um að gera að finna eitthvað til að gera saman með fjölskyldunni. Hví ekki hugsa út fyrir boxið og hekla Covid-19 veiruna.


Covid-19 veirukúlan hefur margskonar notagildi. Eftir að veiran hefur verið hekluð væri hægt að nota hana til ræða um veiruna meðal þeirra yngri á heimilinu. Hvað veiran gerir? Hvaðan kom hún? Mikilvægi handþvottar í baráttunni gegn veiruna. Svo fyrir lengra komna mætti fara út í fræðilegu hliðar veirunnar. Efnasamsetningar og það allt.

Svo getur Covid-19 kúlan nýst í margskonar boltaleiki. Einn ónefndur unglingur stakk upp á Covidbolta. Leikreglurnar eru nánasta þær sömu í venjulegum skotbolta nema þegar þú ert skotinn með Covidboltanum smitastu af Covid-19 veirunni og breytist í uppvakning (zombie). Eina leiðin til að frelsa mann og lækna er að þvo á manni hendurnar og spritta.

Hún getur einni nýst sem jólaskraut enda óneytanlega í jólalitunum.

Svo er um að gera að nota hugmyndaflugið og finna aðrar leiðir til nota kúluna. 


Covid-19 veirukúla uppskriftin:
Hér að neðan má finna uppskriftina að kúlunni. Hana samdi Elín Guðmundsdóttir, hamfaraheklari og náttúrufræðingur. Hún vill taka það fram að uppskriftin er leiðarvísir og gott að muna að veiran þarf ekki að vera fullkomin eða samhverf, því engin lífvera er fullkomin og allar veirur eru ófullkomnar og geta verið (stökk)breytilegar.

Garn: Kambgarn
Heklunál nr. 3
Veira: Hrímgrár 1202
Spike-Glýkóprótín: Kirsuberjarauður 0958
Hemagglutinin-esterase: Hunangsgulur 1212

Skammstafanir í uppskrift:
fl. = fastalykkja
st. = stuðull
kl. = keðjulykkja

„Best er að byrja á því að gera spike-glýkóprótínin (sykurhvítuna, sem eru rauðu „nabbarnir“ utan á veirunni). Þau gerir maður fyrst, því það er gott að festa þau á jafn óðum og við heklum boltann (veiruna). Ég gerði 24 stykki. Það fer eftir smekk og þolinmæði hvað er hægt að gera marga,“ segir Elín.


Topp (spike) - Glýkóprótín:
Heklaðu 3 loftlykkjur + 2 (telst sem stuðull)., heklaðu svo til baka 3 stuðla (st) í þriðju loftlykkjuna, næst 1 fl í aðra og loks 2 fl í þá fyrstu. Passaðu að hafa endana ríflega. Geymdu prótínin og snúðu þér að gráa garninu.


Veiran hekluð:
Til að hekla veiruna gerum við bolta.
Byrjað er á 6 loftlykkjum sem eru tengdar í hring. Þegar við byrjum á boltanum og erum að víkka út, bætum við við 6 lykkjum í hverri umferð:
1. umferð: heklaðu eina loftlykkju (telst sem 1 fl.), heklaðu svo 11 fl. utan um (ekki inn í loftlykkjurnar) loftlykkjuhringinn, festu saman með kl. (alls 12 lykkjur)
2. umferð: heklaðu eina loftlykkju (telst sem 1 fl.), *1 fl, 2 fl í næstu lykkju. Endurtaka frá *. Sameina með kl. (18 lykkjur)
3. umferð: heklaðu eina loftlykkju (telst sem 1 fl.), *1 fl í 2 lykkjur, 2 fl í þriðju lykkju. Endurtaka frá *. Sameina með kl. (24 lykkjur)
4. umferð: heklaðu eina loftlykkju (telst sem 1 fl.), *1 fl í 3 lykkjur, 2 fl í fjórðu lykkju. Endurtaka frá *. Sameina með kl. (30 lykkur)
5. umferð: heklaðu eina loftlykkju (telst sem 1 fl.), *1 fl í 4 lykkjur, 2 fl í fimmtu lykkju. Endurtaka frá *. Sameina með kl. (36 lykkjur)
6. umferð: heklaðu eina loftlykkju (telst sem 1 fl.), *1 fl í 5 lykkjur, 2 fl í sjöttu lykkju. Endurtaka frá *. Sameina með kl. (42 lykkjur)
Nú er útvíkkun lokið. Þá er miðjan hekluð, en þar er engin útvíkkun:
7. – 13. umferð: heklaðu eina loftlykkju (telst sem 1 fl.), heklaðu svo 1 fl í hverja lykkju allan hringinn. Sameina með kl.
Þá má fara að loka boltanum aftur með því að taka úr lykkjur. Hér er gott að festa rúmlega helminginn af Spike-Glýkóprótínunum á boltann. Það gerir þú með því að þræða sinn hvorn endann, sitt hvoru megin við fastalykkju og gera réttan hnút innan í boltanum. Ekki hafa áhyggjur af því að klippa endana, þeir virka sem fylling/tróð. Þegar prótínin eru komin á boltann, nokkðu jafnt en óreglulega, má huga að því að setja í tróð jafn óðum og boltinn lokast. Þegar við heklum svo áfram næstu umferðir bætum við glýkóprótínunum einnig við með sömu aðferð og áður.
14. umferð: heklaðu eina loftlykkju (telst sem 1 fl.), *1 fl í 5 lykkjur, sleppa einni lykkju. Endurtaka frá *. Sameina með kl.
15. umferð: heklaðu eina loftlykkju (telst sem 1 fl.), *1 fl í 4 lykkjur, sleppa einni lykkju. Endurtaka frá *. Sameina með kl.
16. umferð: heklaðu eina loftlykkju (telst sem 1 fl.), *1 fl í 3 lykkjur, sleppa einni lykkju. Endurtaka frá *. Sameina með kl.
17. umferð: heklaðu eina loftlykkju (telst sem 1 fl.), *1 fl í 2 lykkjur, sleppa einni lykkju. Endurtaka frá *. Sameina með kl.
18.-19. Umferð: heklaðu eina loftlykkju, 1 fl í aðra hverja lykkju allan hringinn. Sameina með kl.
Nú er boltinn tilbúinn og mál að festa örfáu glýkóprótínin sem eftir eru á veiruna. Þegar veiran er komin með tróð í og lokuð þarf að beita smá öðruvísi tækni til að festa þau á. Ég þræði sinn hvorn endann ofan í veiruna, sitt hvoru megin við fastalykkju og svo upp hjá hinum endanum. Þar bind ég hnút og þræði endana aftur ofan í veiruna.
Nú er veiran næstum klár. Aðeins loka-útlitið eftir.


Þá eigum við eftir að gera Hemagglutinin esterase glýkóprótínin (HE), litlu gulu dílana:
Þræddu góða lengd af gulu garni á oddlausa javanál og þræddu endann inn og upp um fastalykkju.
Með jöfnu millibili, *þræddu í fastalykkju (innanfrá), bittu tvo hnúta, saumaðu ofan í fastalykkjuna aftur og strax aftur upp í næstu fastalykkju, tvo hnúta og niður í lykkjuna. Endurtaktu frá * á öðrum stað á veirunni þangað til gulu dílarnir eru dreifðir jafnt um veiruna.

Gangtu frá öllum endum og dáðstu að meistaraverkinu þínu! 

Svo er bara muna að þvo sér vandlega og taka tillit til annarra.

 

Heklaða Covid-19 veiran. Mynd: BKG

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.