Orkumálinn 2024

Club Romantica snertir við fólki á annan hátt en það væntir þegar það mætir

Fellbæingurinn Pétur Ármannsson leikstýrði Club Romantica sem í gærkvöldi fékk Grímuverðlaunin sem leikrit ársins og hlaut þrjár aðrar tilnefningar að auki. Hann telur mannlega þáttinn í sýningunni vera hennar helsta styrkleika.

„Ég er ótrúlega stoltur og hamingjusamur með þessa viðurkenningu,“ segir Pétur.

Verðlaun ársins eru veitt nýju íslensku leikriti. Club Romantica er samið af Friðgeiri Einarssyni, sem einnig stendur á sviðinu ásamt tónlistarmanninum Snorra Helgasyni. Verkið segir sögu af myndalbúmi sem Friðgeir keypti á flóamarkaði í Belgíu og tilraunum hans til að hafa uppi á fyrrum eiganda albúmsins.

Club Romantica var frumsýnt í Borgarleikhúsinu í febrúar. Pétur segir að uppselt hafi verið á nær allar sýningar og búið er að ákveða fleiri sýningar í haust. Hann vonast til að verðlaunin verði til þess að vekja enn frekari athygli á leikverkinu.

„Þetta er sjálfstæð leiksýning sem sýnd er í samvinnu við leikhúsið. Sjálfstæðar sýningar eiga það til að sigla undir radarinn þótt þær séu góðar og þetta verður vonandi til þess að fleiri viti af sýningunni.“

Bæði gagnrýnendur og leikhúsgestir hafa hlaðið sýninguna lofi. „Við höfum fengið mjög góða gagnrýni og fólk hefur verið gjafmilt á að segja okkur hve vel því hafi líkað hún.“

Einlæg og fyndin sýning

Aðspurður um ástæðurnar fyrir vinsældir sýningarinnar segist Pétur telja að það sé mannlegi þátturinn í henni. „Hún er mjög mannleg og ég held að hún snerti við fólki á annan hátt en það væntir þegar það kemur inn í salinn.

Það er mikið hjarta í henni, hún er einlæg og fyndin. Friðgeir er frábær leikari, hann er komískt sterkur á sviði en leyfir sér líka að kafa í varnarleysi sitt og opinbera sig á sviðinu.“

Pétur segist strax hafa stokkið á tækifærið til að leikstýra sýningunni þegar honum bauðst það. „Friðgeir heyrði í mér og spurði hvort ég hefði áhuga á að gera sýninguna að veruleika. Mér fannst hugmyndin að verkinu frábær auk þess sem hann er mikill listamaður sem mig hefur lengi langað til að vinna með þannig ég sagði strax já.“

Leikstýrir nýju austfirsku verki

Næsta verkefni Péturs er að leikstýra Stórskáldinu, nýju íslensku verki, í Borgarleikhúsinu. Það verður frumsýnt 18. október og hefst undirbúningur við það þegar líður á sumarið.

Strax eftir frumsýningu þess mun Pétur fljúga austur á æskuslóðirnar þar sem hann mun leikstýra verki sem Kolbeinn Arnbjörnsson ætlar að setja upp á Seyðisfirði. „Við fengum listamannalaun í það og styrk eystra. Þetta er nýtt íslenskt verk eftir Kolbein. Það verður frumsýnt í byrjun febrúar og við byrjum að vinna í nóvember.“

Pétur segir líka að möguleikinn að koma austur með Club Romantica sé alltaf fyrir hendi. „Ég held við séum opin fyrir að sýna hana hvar sem færi gefst eftir þessar sýningar sem bókaðar eru í Borgarleikhúsinu í haust. Ég hef alltaf lagt áherslu á að koma með mín verk austur og bæta aðgengi landsbyggðarinnar að samtíma leikhúsinu. Það er vel hægt að ferðast með þessa sýningu. Efniviðurinn og hjartað hverfur ekki þótt hún sé sett upp í einfaldara umhverfi.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.