Orkumálinn 2024

Brúðkaup fer til fjandans í Valaskjálf

Leikfélag Menntaskólans á Egilsstöðum frumsýnir á morgun gamanleikritið Brúðkaup eftir Guðmund Ólafsson í leikstjórn Ísgerðar Elfu Gunnarsdóttir, leikkonu og leikstjóra. Verkið fjallar um brúðkaup þar sem allt klikkar sem getur klikkað og meira til. Nemendur menntaskólans hafa unnið hörðum höndum síðustu vikur við uppsetningu leikritsins.

 
Bríet Sigurjónsdóttir formaður leikfélags Menntaskólans segir að æfingaferlið hafi gengið mjög vel þrátt fyrir stutt æfingaferli.

„Það er búið að ganga vel en auðvitað strembið líka, eins og gengur og gerist hjá menntaskólaleikfélögum. Við ákváðum að hafa æfingaferlið fimm vikur í stað sex til átta eins og tíðkast venjulega í leikhúsum,“ segir Bríet.

Hún segir að þegar stjórn leikfélagsins hafi verið að leita að verkum til að setja upp fundu þau þetta gamanverk og leist strax vel á.

„Okkur fannst það frábært strax. Við sendum það svo til Ísgerðar leikstjóra, sem fílaði það líka svo það var þá ákveðið.“

Leikstjórinn Ísgerður segir þetta sé klassískur farsi þar sem allt klikkar og flækjustigið sé næstum einum of mikið.

„Krakkarnir eru búin að standa sig rosalega vel þrátt fyrir að vera í fullu námi og sumir í hópnum voru líka í Morfís og Gettu betur,“ segir hún. Fjórtán krakkar leika í sýningunni.

Bríet segir að miðasala hafi farið vel af stað og hvetur að sjálfsögðu sem flesta koma og skemmta sér.

Gamanleikritið Brúðkaup verður frumsýnt annað kvöld í Valaskjálf, Egilstöðum.

 

Frá æfingu leikfélagsins á Brúðkaupi í Valaskjálf. Myndin er aðsend.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.