Brimskaflar í boði lífsins og vorið

Erindi um áföll, tónleikar og pólsk listsýning eru meðal þess sem í boði verða á Austurlandi síðasta vetrardag og sumardaginn fyrsta.

„Brimskaflar í boði lífsins“ er yfirskrift erindi sem lögfræðingurinn Helgi Jóhannesson flytur í safnaðarheimili Reyðarfjarðarkirkju klukkan 17 í dag. Þar fer Helgi yfir áföll og missi sem hann varð fyrir í fyrra, fyrst þegar sonur hans svipti sig lífi, síðan þegar hann missti starf sitt eftir óásættanlega framkomu gagnvart samstarfskonu.

Helgi hélt sambærilegan fyrirlestur á Djúpavogskirkju í gærkvöldi. Hann ræðir um hvað hafi reynst honum best til að takast á við erfiða tíma. Það er hluti af hans bataferli um leið og vonast er til að hans reynsla geti hjálpað öðrum. Talsverðar umræður spunnust eftir erindi hans á Djúpavogi í gær.

Í kynningu á erindinu segir að um sé að ræða einlægt erindi um sorg og úrvinnslu þar sem farið sé yfir áfall, missi, úrvinnslu og endurkomu.

Vor/Wiosna

Pólska listahátíðin Vor eða Wiosna hefst á morgun og stendur yfir helgina. Tónlist verður fyrirferðamikil að þessu sinni. Á morgun hefst námskeið í slavneskri söngtækni í Egilsstaðaskóla en það stendur til sunnudags. Þann dag verða tónleikar í Egilsstaðakirkju með slavneskum söngvum þar sem þátttakendur námskeiðsins koma fram ásamt gestum.

Á föstudag og laugardag verður vinnustofa í stafrænni tónlist í Menntaskólanum á Egilsstöðum. Á Seyðisfirði á laugardag og Egilsstöðum á sunnudag verður fjölskyldustund með lifandi tónlist þar sem hljóðheimar verða kannaðir með nýstárlegum hljóðfærum. Á föstudag verða tónleikar, kvikmyndasýning og opnun listsýningar í Herðubreið, Seyðisfirði.

Tónlist og fótbolti

Á Skriðuklaustri klukkan 15:00 á morgun stendur fjöllistakonan Sophie Fetokaki fyrir tónleikum en hún dvelur í listamannaíbúð þar. Á efnisskránni eru þjóðlög frá Kýpur og Bandaríkjunum, ásamt hennar eigin verkum. Aðgangur er ókeypis en tekið við frjálsum framlögum til styrktar úkraínskum flóttafjölskyldum á Austurlandi.

Höttur/Huginn mætir Einherja í annarri umferð bikarkeppni karla í knattspyrnu á Fellavelli klukkan 14:00 á morgun. Liðið sem vinnur fer í 32ja liða úrslit sem leikin verða í lok maí. Þar bætast úrvalsdeildarliðin í hópinn. Í Lengubikar kvenna leikur Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir gegn Haukum á Ásvöllum á sama tíma.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.