Bræðslan 2019: Miðasala hefst um hádegi

„Þetta er allt hvert úr sinni áttinni og það er eitthvað sem okkur þykir voðalega skemmtilegt,” segir Áskell Heiðar Ásgeirsson, um dagskrá Bræðslunnar 2019 sem kunngjörð var í gær, en miðasala hefst á vef Bræðslunnar í hádeginu í dag.

Það verða Auður, GDRN, Dúkkulísurnar, Dr. Spock, Jón Jónsson og Friðrik Dór, Sóldögg og Jónas Sigurðsson sem stíga á stokk í gömlu bræðslunni á Borgarfirði þann 27. júlí.

„Þarna ættu flestir að finna eitthvað við sitt hæfi. Auður og GDRN koma til með að spila saman og í sitthvoru lagi. Sóldögg hefur aldrei komið til okkar áður, en er frábær hljómsveit sem á marga góða smelli. Dúkkulísurnar eru svo að sjálfsögðu úr heimabyggð, en þær eru búnar að vera lengi á leiðinni til okkar og afar gleðilegt að það sé loksins í höfn. Með Dr. Spock verður brotið blað í sögu hátíðarinnar, en þá mun fyrsti „fyrrverandi ráðherra” landsins spila hjá okkur. Jónas mun svo mæta með bandið sitt og síðast en ekki síst þeir bræður Jón og Friðrik Dór en þá má búast við að saulurinn taki vel undir,” segir Áskell Heiðar.

Hátíð í sátt við heimamenn
Þetta er sextánda árið í röð sem Bræðslan er haldin. „Þetta er alltaf jafn skemmtilegt. Það er frábært að fá góða gesti á staðinn og halda vel heppnaða samkomu. Fyrir okkur sem að þessu stöndum er þetta miklu meira og má líkja við „reunion”, en þarna hittist sami hópurinn árlega, fjölskyldur, vinir og samstarfsfélagar sem allir stefna að sama marki. Bræðslan hefur náð því að halda því öll þessi ár að vera með samkomu í sátt við heimamenn og það er forsenda þess að þetta rúllar svona vel.”


Aðeins 900 miðar í boði
Er þetta í annað skipti sem miðasala fer fram á vef Bræðslunnar. „Við erum orðin svo sjálfstæð, þetta gekk vel í fyrra þannig að við höldum bara ótrauð áfram. Síðustu ár hafa miðarnir verið að fara á nokkrum vikum. Við mælum því með að þeir sem eru ákveðnir í að fara tryggi sér miða sem fyrst, en aðeins eru 900 miðar í boði og ekki hægt að bæta við þó svo eftirspurn verði mikil.”


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar