Orkumálinn 2024

Borgfirskur lundi á lista yfir bestu náttúrulífsmyndir ársins

Mynd af lunda á Borgarfirði eystra með gogginn fullan af fiski er meðal þeirra sem koma til greina sem náttúrulífsmynd ársins í samkeppni tímaritsins National Geographic í Hollandi. Ljósmyndarinn segist hafa skemmt sér stórkosta tímunum saman með að fylgjast með lundanum í Hafnarhólmanum.

„Ég sendi myndina inn þótt ég teldi mig ekki eiga nokkrun möguleika,“ segir Lisbeth Steller í samtali við staðarmiðilinn Flevopost.

Ljósmyndun hefur verið helsta áhugamál hennar síðustu tíu ár. Hún hafði í vor skipulagt ferðalag til Íslands ásamt vinkonu sinni, einkum til að mynda lundann. Vegna Covid-faraldursins frestaðist ferðalagið fram á sumar. Liesbeth lýsir Íslandsferðinni sem spennandi því stund sannleikans hafi runnið upp þegar þær fóru í sýnatöku á landamærunum.

Þar reyndist allt í lagi hjá vinkonunum sem eftir nokkurra daga ferðalag um landið komu til Borgarfjarðar. „Í litlu höfninni þar fundum við hundruð lunda á hólma. Við tókum upp búnaðinn okkar, horfðum og mynduðum tímunum saman. Þetta eru stórkostleg dýr.“

National Geographic tímaritið er eitt af þeim stærstu á sínu sviði í heiminum en það fjallar um vísindi, tækni, umhverfi, náttúru og menningu. Það kemur út óslitið frá árinu 1888 og stendur árlega fyrir samkeppni um bestu myndir ársins. Hollenska útgáfan hóf göngu sína árið 2000.

Keppninni er skipt í þrjá flokka en mynd Lisbeth er í flokki dýramynda. Níu aðrar eru þar. Kosning meðal lesenda er hafin og stendur til 29. október. Hægt er að sjá myndina í heild sinni og taka þátt í kjörinu hér. Úrslitin verða tilkynnt 15. nóvember.

„Það eru ekki bara lundarnir sem búa í hólmanum heldur líka mávar. Þeir geta verið mjög pirrandi. Lundi sem kemur fljúgandi með gogginn fullan af fiski þarf að finna holuna sína snögglega því mávarnir sæta alltaf færis með að stela fiskinum handa eigin ungum. Blessunarlega tekst lundunum oftast að komast á sinn stað. Ég vona að þessi nærmynd sýni þennan ótrúlega fugl í réttu ljósi,“ segir í umsögn Lisbeth á vef National Geographic.

Mynd: Flevopost/Lisbeth Stellar


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.