Bókaskrifin byrjuðu sem grín

Bókin 101 Austurland – tindar og toppar kemur senn út í enskri útgáfu. Höfundar bókarinnar er reyndur fjallaleiðsögumaður sem segist finna mikinn áhuga erlendra gesta á austfirskri náttúru. Hann bjóst aldrei við að verða rithöfundur en senn hyllir undir útgáfu hans þriðju bókar.

„Íslenska útgáfan kom út í júlí 2016. Við erum mjög ánægð með viðtökurnar sem hún fékk en höfum jafnframt fundið fyrir þörfinni á að hún væri til á ensku. Það hefur mikið verið eftir henni spurt,“ segir Skúli Júlíusson, höfundur bókarinnar.

Í frumútgáfunni er að finna leiðarlýsingu á 101 austfirskt fjall. Sömu leiðir verða í ensku útgáfunni en þar bætist einnig við kort með öllum tindunum. Útgáfan er á lokametrunum, handritið fer í prentun fljótlega og gangi allt að óskum kemur bókin út í júlí, en söfnun fyrir útgáfunni stendur yfir á Karolina Fund.

Auk hefðbundinna lýsinga eru í bókinni QR kóðar sem skanna má með síma til að fá GPS upplýsingar. „Þetta er meira en bók, einhvers konar snjallbók,“ segir Skúli.

Philip Vogler hefur þýtt bókina og er Skúli afar ánægður með útkomuna. „Philip hefur reynslu af því að lýsa landi þannig við fengum meira en bara þýðingu. Mér finnst mjög spennandi að bókin sé að koma út á ensku og það í svona vandaðri útgáfu.“

Skúli starfar sem fjallaleiðsögumaður stóran hluta ársins undir merkjum Wild Boys sem hafa sérhæft sig í að fylgja ferðamönnum á austfirsk fjöll.

„Við finnum mikinn áhuga á fjöllunum okkar og náttúrunni almennt. Fólk finnur að hér er minna af ferðamönnum og við eigum mikið inni.“

Skúli er þegar byrjaður á þriðju útgáfu sinni sem mun innihalda leiðarlýsingar á almennum gönguleiðum á Austurlandi, svo sem Stórurð og Hengifossi. „Við verðum með um 100 leiðir sem henta allri fjölskyldunni – gamlar þjóðleiðir, inn í hella og gil og upp að fossum.“

En hann átti aldrei von á að verða rithöfundur. „Þetta byrjaði sem grín. Við notuðumst við aðra vinsæla fjallabók en í henni voru fá fjöll á Austurlandi. Þess vegna var grínið að ég ætti að skrifa bók um austfirsku fjöllin.

Ég átti mikið af upplýsingum sem ég hafði haldið til haga fyrir sjálfan mig þannig að þegar ég fór að skrifa varð það ekki eins flókið og ætla mætti, lýsingarnar bunuðu upp úr mér þegar ég settist niður. úr mér þegar ég fór að skrifa.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.