Bók um Tyrkjaránið á Austfjörðum 1627

Út er komin bókin „Enslaved: The Story of the Barbary Corsair Raid on East Iceland in 1627“ eða „Í ánauð - saga Tyrkjaránsins á Austurlandi,“ eftir Karl Smára Hreinsson og Adam Nichols. Hún er fyrsta heildstæða verkið um Tyrkjaránið á Austfjörðum.

Tyrkjaránið á Austfjörðum hefur fallið í skuggann af Tyrkjaráninu í Vestmannaeyjum, en þó var vel yfir 100 manns rænt á Austfjörðum, aðallega á Djúpavogi, í Berufirði, á Berufjarðarströnd og í Hamarsfirði. Sömu ræningjar héldu síðan til Vestmannaeyja og rændu þar hátt í 250 manns og drápu á milli 30 og 40 manns.

Í bókinni er fjallað um aðdraganda Tyrkjaránsins, ránið á Austfjörðum og síðan afdrif fólksins sem rænt var eins og heimildir leyfa. Einnig er kafli um Algeirsborg og líf hertekna fólksins, síðan útkaup þeirra Íslendinga sem leystir voru úr þrældómi og fluttir til Íslands og sérstaklega um þátt Hollendinga í þeirri aðgerð.

Aðalheimild um Tyrkjaránið á Austfjörðum er svokölluð „Frásögn skólapilta að austan,“ sem var tekin saman í Skálholti 1628. Þessi frásögn skólapiltanna við Skálholtsskóla lýsir mjög nákvæmlega ráninu á Austfjörðum í júlímánuði 1627. Önnur aðalheimild um Tyrkjaránið á Austfjörðum er bréf Guttorms Hallssonar bónda á Búlandsnesi, sem rænt var en Gunnlaugur sendi langt og ítarlegt bréf til Íslands úr „Barbaríinu“, eins og múslimski hluti Norður Afríku var kallaður.

Bókin er alls um 170 bls. Mörg kort eru í bókinni, sem hjálpa lesandanum að fá yfirlit yfir ránið á Austfjörðum. Þar má nefna kort yfir alla þá staði sem rændir voru og leið Tyrkjanna á ránsferðum um Austfirðina. Ýmsar þjóðsögur og sagnir sem tengjast Tyrkjaráninu er að finna í bókinni og skýringar á ýmsum örnefnum sem tengjast þessum atburðum. Heimilda- og nafnaskrá er í lok bókarinnar. Bókin, sem er á ensku, er gefin út af Sögu Akademíu í samstarfi við Sögufélag Austurlands.

Höfundar þessara bóka hafa í mörg ár rannsakað Tyrkjaránið á Íslandi og skrifað greinar um það sem birst hafa bæði í erlendum og innlendum blöðum og tímaritum. Þeir haf áður sent frá sér þrjár viðlíka bækur og sú sem nú kemur út um Tyrkjaránið í Grindavík, Vestmannaeyjum auk enskrar þýðingar á Reisubók sr. Ólafs Egilssonar. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.