Orkumálinn 2024

Bjóst aldrei við að fá hátt í tvö þúsund spilanir á Spotify

María Bóel Guðmundsdóttir átti aldrei von á að að hennar fyrsta frumsamda lag sem hún gæfi út fengi hátt í 2000 spilanir á stuttum tíma á tónlistarveitunni Spotify. Lagið samdi hún til afa síns sem hún missti ung.

„Ég hef verið að semja og mig hefur alltaf langað að gefa eitthvað út. Pabbi hefur hvatt mig áfram og úr varð að við sendum Jóni Ólafssyni nokkur lög til að velja úr.

Hann valdi þetta. Ég samdi það um afa minn sem ég missti átta ára gömul. Það tók mjög á mig,“ segir María Bóel um lagið Alein.

Það fór inn á Spotify fyrir rúmri viku og hefur síðan fengið um 2000 spilanir. „Ég bjóst ekki við þessari spilun því það er ekki komið í útvarp, við höfum bara dreift því á netinu. Ég ætlaði að vera ánægð ef það næði 1000 spilunum.“

Jón Ólafsson, oft kenndur við Nýdönsk, útsetti lagið og vann það með Maríu. Hann fékk einnig hljóðfæraleikara til verksins auk þess að spila sjálfur á hljómborð, bassa og syngja raddir.

María Bóel á ekki langt að sækja tónlistarhæfileikana en hún er dóttir Guðmundar Gíslasonar, söngvara SúEllen. „Honum finnst þetta spennandi hjá mér og hefur stutt vel við mig. Ég á gott bakland í honum,“ segir hún. Afinn sem hún syngur til var faðir Guðmundar, Gísli Gíslason, hafnarvörður í Neskaupstað.

María Bóel talar um lagið sem sitt fyrsta og leynir því ekki að hún eigi fleiri í handraðanum. „Ég þarf að fara að taka þau upp og gefa út. Ég söng frumsamið lag fyrir Verkmenntaskólann í söngkeppni framhaldsskólanna í vetur með Ísabellu Daníu Heimisdóttur. Við unnum ekki keppnina en fengum flest atkvæði í símakosningunni.“

María Bóel og Ísabella Danía flytja báðar frumsamið efni, þó hvor í sínu lagi, á tónleikum bæjarhátíðarinnar Neistaflugs á sunnudagskvöld. „Ég er mjög spennt fyrir tónleikunum. Ég hef oft komið fram á Neistaflugi, ég tók alltaf þátt í krakka-idolinu og hef sungið á stóra sviðinu. Þetta verður í fyrsta skipti sem ég syng eigið efni.

Ég söng lagið í fyrsta sinn opinberlega fyrir Norðfirðinga á bílskúrstónleikum á þriðjudagskvöld. Það var góð æfing fyrir stóru tónleikana.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.