Biðlisti í hnífanámskeiðið á Smiðjuhátíð

Færri komust að en vildu á námskeið í hnífasmíði á Smiðjuhátíð Tækniminjasafns Austurlands sem haldin er um helgina. Hátíðin verður sú síðasta sem núverandi forstöðumaður stýrir.

„Það er langur biðlisti í hnífasmíðina og hann mun ekki leysast,“ segir Pétur Kristjánsson, forstöðumaður Tækniminjasafnsins.

Að auki eru námskeið í prentlist, eldsmíði, málmsteypu og tálgun. Það síðastnefnda byrjaði klukkan tíu í morgun en hin núna klukkan eitt eftir hádegi.

„Það er mjög mismunandi milli ára hvaða námskeið er vinsælast. Það veit enginn hvers vegna, það er umfjöllunarefni fyrir markaðsfræðinga.“

Gestum og gangandi er frjálst að koma og líta við á námskeiðunum auk þess sem frítt er inn á safnið um helgina. Auk smiðjanna er á safninu boðið upp á þjóðlegan mat í formi flatbrauðs, kleina og kjötsúpu um helgina auk lifandi tónlistar bæði í kvöld og annað kvöld.

Hátíðin verður sú síðasta sem Pétur stýrir sem forstöðumaður safnsins, en hann sagði upp starfi sínu fyrr í mánuðinum. Pétur hefur verið verið viðloðandi safnið allt frá árinu 1985 og í fullu starfi sem forstöðumaður frá 2002.

„Þetta verður mín síðasta hátíð sem stjórnandi, en ekki sem þátttakandi. Það eru margir sjálfboðaliðar sem gera þessa hátíð að verkum.

Mér finnst vera kominn tími á að skipta um starfsvettvang. Mér finnst bæði spennandi að gera sjálfur eitthvað nýtt og ég held líka að það sé spennandi fyrir safnið að fá nýjan stjórnanda.“

Palli hnífasmiður ásamt ánægðum lærlingum  á Smiðjuhátíð 2016.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.