Biblíubrauð í öskudagsmessu

Sérstakar öskudagsmessur verða sungnar í Eydala- og Stöðvarfjarðarkirkju í fyrramálið og boðið upp á brauð eftir uppskrift úr biblíunni. Öskudagur á sér rætur í kristnum hefðum þar sem askan er tákn um hreinsun.

„Öskudagur er gamall messudagur. Það hefur verið lítið af slíkum hérlendis undanfarin ár, nema að sr. Kristján Valur Ingólfsson vígslubiskup hefur messað í þremur kirkjum síðustu ár í Hallgrímskirkju, Mosfellskirkju og Háskólakapellunni þar sem ég kynntist þessum sið,“ segir sr. Dagur Fannar Magnússon, prestur í Eydölum í Breiðdal.

Samkvæmt kristinni trú er öskudagur fyrsti dagurinn í sjö vikna föstu sem stendur fram undir páska. Fastan er til minningar um þau 40 ár sem Ísraelar ráfuðu um í eyðimörkinni í leit sinni að fyrirheitna landinu eftir að hafa verið hraktir út í hana af Egyptum sem og 40 daga sem Jesú dvaldi í eyðimörkinni þar sem hann barðist við þær freistingar sem Djöfullinn lagði fyrir hann.

Dagur Fannar bendir á að fastan sé tími hreinsunar og iðrunar en askan er tákn um hreinsunina. „Hugtakið að iðrast í sand og ösku er komið úr þessum trúarlega grunni. Þegar menn iðruðust lögðust þeir í sandinn og stráðu ösku yfir höfuð sér.“

Hreinsun af erfiðum tilfinningum

Dagur Fannar segir öskudagsmessurnar með nokkrum öðrum hætti en aðrar messur. Þær hefjist í forkirkjunni og krefjist virkari þátttöku safnaðarins en hefðbundnar sunnudagsmessur.

Þá er hefð fyrir því að brenna pálmalauf, helst frá pálmasunnudegi árinu áður, blanda öskunni út í vatn og gera svokallaðan öskukross á enni kirkjugesta sem ganga fram undir lok messu. Slíkt verður í boði í messunum á morgun.

„Öskukossinn er merki hreinsunar og iðrunar. Með því er fólk að hreinsa sig og iðrast syndarinnar sem við tengjum oft við illan verknað en nær væri að tala um að hreinsa sig af erfiðum tilfinningum.“

Tilraunabakstur í pizzaofninum

Þá verður við messurnar útdeilt brauði ekkjunnar í Sarepta. Uppskrift og saga brauðsins er í Gamla testamentinu. Þar segir frá því að Elía spámaður hafi komið til ekkju einnar og beðið hana um vatn og brauð. Konan tímdi ekki því litla mjöli sem hún átt eftir, sagðist ætla að gera brauð handa sér og syni sínum áður en þau dæju. Elía taldi hana á að gefa sér brauð, gegn því að Guð myndi tryggja að mjölkrukka ekkjunnar myndi ekki tæmast þar til næst rigndi. Brauðið varð þar með tákn um líf en ekki dauða.

Dagur Fannar var að gera tilraunir með brauðið þegar Austurfrétt náði í hann. „Ég vil færa það sem næst upprunanum. Brauð á þessum tíma var bakað á steini við eld og þess vegna er ég að gera tilraunir með það í pizzaofninum.“

Fyrri messan er í Eydalakirkju (Heydala) í Breiðdal klukkan átta í fyrramálið en sú einni í Stöðvarfjarðarkirkju klukkan tíu. Dagur Fannar viðurkennir að messutíminn sé í fyrra fallinu miðað við að vera í miðri viku. Þess hefð hafi myndast við öskudagsmessurnar syðra en verði skoðuð betur fyrir öskudagsmessu framtíðarinnar eystra. „Ég held það sé samt gott að byrja á messu og halda út í daginn með léttan anda.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.