Orkumálinn 2024

Berjast fyrir því að Hans Jónatan verði lýstur frjáls maður

Afkomendur Hans Jónatans, fyrsta blökkumannsins sem vitað er að hafi sest að á Íslandi, hafa hafið baráttu fyrir því að dönsk stjórnvöld lýsi því yfir að hann hafi verið frjáls maður en ekki þræll.

Hans Jónatan var fæddur af ambátt hjá danskri fjölskyldu sem ræktaði sykurreyr í Vestur-Indíum árið 1784. Hann fluttist með fjölskyldunni til Danmerkur og komst þar í tæri við hugmyndir um frelsi mannsins.

Eftir að hafa sinnt herþjónustu, meðal annars í bardaganum um Kaupmannahöfn, taldi Hans Jónatan að hann gæti fengið frelsi. Húsbændur hans kröfðust hins vegar viðurkenningar á því fyrir dómstólum að hann væri þeirra eign.

Dómurinn féll þeim í hag en Hans Jónatan tókst að komast til Djúpavogs árið 1802. Þar hefur sögu hans verið haldið á lofti, ekki síst eftir útgáfu bókar Gísla Pálssonar „Maðurinn sem stal sjálfum sér“ árið 2014. Síðan hefur verið gerð sjónvarpsmynd um sögu Hans Jónatans og erfðamengi hans verið endurskapað hjá Íslenskri erfðagreiningu. Allt þetta hefur vakið heimsathygli á sögu hans.

Rasmussen vildi ekki taka málið upp

Nú hafa afkomendur hans hrundið af stað baráttu fyrir því að Hans Jónatan verði viðurkenndur sem frjáls maður. Hún hefur hins vegar ekki borið árangur enn.

„Ég hélt að það væri möguleiki að taka málið upp og lýsa hann frjálsan mann eftir andlát sitt,“ er haft eftir Kirstin Pflomm í fréttaskýringu ástralska ríkisútvarpsins um sögu Hans Jonatan en Kirstin er afkomandi í fimmta lið.

Hún segist í fyrra hafa spurt Lars Lökke Rasmussen, þáverandi forsætisráðherra Dana, um möguleikann en fengið neikvætt svar með rökstuðningi um að slík aðgerð fengi litlu breytt.

Kirstin hefur hins vegar ekki gefið upp vonina og bendir á að Danir séu smátt og smátt að horfast í augu við fortíð sína sem nýlenduþjóð. Þannig sé ekki langt síðan reist hafi verið stytta í Kaupmannahöfn til minningar ambátt sem leiddi uppreisn gegn Dönum í Vestur-Indíum.

„Ég held að það sé fyrsta opinbera viðurkenningin á tengslum við þrælahald. Það er oft erfitt að horfast í augu við fortíðina og staðreyndina um að landið þitt hafi tekið þátt í skelfilegum atburðum,“ segir hún.

Kynþáttafordómarnir urðu til á þrælatímanum

Ástralska ríkisútvarpið ræddi einnig við Gísla sem bendir á að það hafi ekki verið fyrr en um 2000 sem hægt var að rekja saman íslenskar og danskar sögur sem leiddu til þess að Danir gerðu sér fyllilega hvað varð af Hans Jónatan á sínum tíma.

Gísli segir ennfremur að Danir séu almennt ekki þekktir fyrir að hafa verið nýlenduþjóð með þræla en svo hafi vissulega verið. Kynþáttafordómar séu afleiðing þess tíma en Hans Jónatan virðist algjörlega hafa sloppið við þá á Djúpavogi.

„Hann kemur til Íslands áður en kynþáttafordómarnir berast frá Evrópu. Áður en þeir komu fram voru vissulega átök milli fólks en ekki endilega út frá kynþætti. Það er bara með þrælahaldinu, sykrinum kapítalismanum sem þessi ofboðslega harka og aðgreining milli hvítra og svartra verður til. Með öðrum orðum þá verður kynþáttahyggjan til í þessu umhverfi.“

Einnig er rætt við Kára Stefánsson hjá Íslenskri erfðagreiningu, sem sjálfur er ættaður frá Djúpavogi, sem segir að ólík skilgreining kynþátta fyrirfinnist vart í íslenskum fornlögum. „Hugtökin voru einfaldlega ekki til í íslenskri tungu þá.“

Fyrirtæki hans tókst í fyrra að endurskapa 38% af erfðamengi Hans Jónatans eftir um 20 ára vinnu. Með því var hægt að greina nánar hvaðan Hans Jónatan er upprunninn en Danir sóttu þræla til Vestur-Afríku til að vinna á sykurekrum sínum. Enn er óljóst hver faðir Hans Jónatans hafi verið, aðeins er vitað að hann var hvítur. Vinna stendur yfir við að safna DNA efni sem fært gæti sönnur á faðernið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.