Benz-inn frá 1936 vinsæll í brúðkaup

Bræðurnir Jón Grétar og Indriði Margeirssynir áttu elsta bílinn sem sýndur var á bílasýningu í Fjarðabyggðarhöllinni nýverið. Það var svartur Mercedes Benz 170 frá árinu 1936 eins og yngra fólk þekkir helst úr bíómyndum.

„Bílinn kemur upphaflega uppgerður frá Tékklandi 2006,“ segir Indriði í viðtali í Austurglugganum.

„Félagi minn Sæmundur (Sigmundsson, bifreiðastjóri) í Borgarnesi átti hann upphaflega. Ég hafði séð bílinn hjá honum og talað nokkuð um hann við hann. Það var síðan árið 2009 sem Sæmundur hafði samband við mig og bauð mér hann til kaups. Ég hringdi í bróður minn og spurði hvort við ættum ekki að skella okkur á hann og það var búið að segja já fyrir hádegi.“

Indriði býr á Breiðdalsvík en Jón Grétar á Reyðarfirði. Þrátt fyrir það eru ekki mikil átök um hvor fái að hafa bílinn. „Samkomulagið er gott. Ég geymi hann á veturna og dytta að honum þá áður en hann fer til Jóns yfir sumarið,“ segir hann.

Keyrður reglulega

Indriði segir bílinn í góðu standi, meðal annars vegna þess að þeir bræður fari reglulega í ökuferðir á honum. „Hann gengur eins og klukka. Við keyrum hann reglulega til að halda honum við og smyrjum hann. Ef gangverkið er ekki hreyft þá festist það,“ segir Indriði.

Við bætist að vinsælt er að panta bílinn til að keyra brúðhjón í honum. „Hann er bókaður næstu helgar og eitthvað í ágúst.“

Hann er ekki eini Benzinn í eigu bræðranna, þeir áttu hvor sinn Benzinn á sýningunni til viðbótar. „Við erum algjörlega forfallnir bílaáhugamenn. Áhuginn hefur fylgt mér síðan ég fékk bílpróf og aukist eftir því sem árin líða. Ég hef áhuga á fleiri tækjum og hef gert upp nokkrar dráttarvélar,“ segir Indriði.

SU-1

Númerið á bílnum vekur líka athygli en það er SU-1. „Afi konunnar minnar átti bíl með þessu númeri,“ segir Indriði.

„Það var vörubíll í Breiðdal sem hann seldi síðar Kaupfélagi Héraðsbúa. Fram til ársins 1938 voru bílnúmer með tveimur bókstöfum, líkt og á bátunum, en eftir það var bara einn bókstafur þar sem U stóð fyrir Suður-Múlasýslu. Vegna þess að bíllinn er gerður fyrir 1938 máttum við nota þetta númer á bílinn og ég tók ástfóstri við það.“

Bilasyning Rfj Juli18 0014 Web
Bilasyning Rfj Juli18 0016 Web
Bilasyning Rfj Juli18 0018 Web
Bilasyning Rfj Juli18 0019 Web
Bilasyning Rfj Juli18 0021 Web
Bilasyning Rfj Juli18 0022 Web
Bilasyning Rfj Juli18 0023 Web
Bilasyning Rfj Juli18 0024 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.