Orkumálinn 2024

Benedikt Karl ráðinn blaðamaður

Benedikt Karl Gröndal hefur verið ráðinn nýr blaðamaður hjá Útgáfufélagi Austurlands sem heldur úti vikublaðinu Austurglugganum og vefmiðlinum Austurfrétt.


Benedikt er fæddur árið 1986 og ólst upp í Grindavík þar til hann fluttist til Reykjavíkur til að nema við Kvennaskólann. Hann lauk síðan tveggja ára leikaranámi í hinum alþjóðlega Commedia skóla í Danmörku.

Benedikt hefur komið víða við í íslensku leiklistarlífi undanfarinn áratug, staðið á sviði og komið fram í sjónvarpi. Hann hefur starfað mikið sjálfstætt en síðustu ár hefur hann mest verið hjá Leikfélagi Akureyrar.

Benedikt leikstýrði, þýddi og skrifaði leikgerð söngleiksins We Will Rock You sem leikfélag Verkmenntaskóla Austurlands setti upp vorið 2017. Hann hefur búið í Neskaupstað undanfarin þrjú ár ásamt unnustu sinni Elínu Guðmundsdóttur sem starfar hjá Náttúrustofu Austurlands.

„Ég hlakka til að takast á við áskoranirnar sem fylgja því að færa mig á nýjan starfsvettvang. Það hefur veitt mér sérstaka ánægju að starfa og búa á Austurlandi og kynnast samfélaginu hér. Það verður spennandi að kynnast því enn betur,“ segir Benedikt Karl. Hann hóf störf í dag og verður með starfsstöð í Neskaupstað.

Benedikt Karl fyllir skarð Kristborgar Bóelar Steindórsdóttur,en hún lét af störfum hjá Útgáfufélaginu í ágúst. Kristborg Bóel var ritstjóri og síðar blaðamaður hjá félaginu frá árinu 2013. Þá hefur Ásta Hlín Magnúsdóttir sinnt afleysingum sem blaðamaður síðustu mánuði. Við þökkum þeim vel unnin störf og bjóðum nýjan blaðamann velkominn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.