Belgískur sjónvarpsmaður heimsótti Mjófirðinga: Við erum hér og þrjóskumst

Belgíski sjónvarpsmaðurinn Tom Waes gerði sér far um að heimsækja sem flesta íbúa Mjóafjarðar í þætti sem sendur var út þar í landi um áramótin. Tom fær þar að kynnast friðsældinni í firðinum, einangruninni og ástríðu íbúanna fyrir staðnum sínum.

„Hvað heldur ykkur við að taka myndir? Það sama og okkur hér. Við erum hér og þrjóskumst. Kannski drepumst við hér, kannski förum við áður,“ svarar Sigfús Vilhjálmsson á Brekku þegar Belginn spyr hann hvað haldi íbúum Mjóafjarðar í firðinum.

Tom fær einnig að vita að Sigfús hafi fæðst upp á lofti í húsinu þar sem hann býr nú. „Sennilega dey ég niðri!“

Vill hafa kindur

Tom kom austur síðasta vetur og reyndi að komast akandi á fjallajeppa yfir Mjóafjarðarheiði í fylgd Samúels Karls Sigurðssonar, sem oft er kenndur við Olís á Reyðarfirði. Sá kafli er áhugasamur fyrir þá sem hafa áhuga á hollenskum blótsyrðum sem fossa af vörum sjónvarpsmannsins þegar hann reynir að komast yfir heiðina.

Þeir verða frá að hverfa en fara í staðinn með báti frá Norðfirði, sem er í huga Belgans glæsilegt sjónarspil.

Tom nýtur gestrisni Sigfúsar og Jóhönnu Lárusdóttur á Brekku og fær að fylgja Róshildi Ingólfsdóttur, barnabarni þeirra, í fjárhúsin. „Mjóifjörður er friðsælasti staður sem ég veit um. Ég veit ekki hvað ég á að gera í Reykjavík, ég hef ekki kindurnar þar. Ég vil hafa kindur þar sem ég er.“

Fengu gefins ullarpeysu

Þaðan liggur leiðin í grunnskólann á Mjóafirði þar sem Erna Björk Óladóttir kennir dóttur sinni, Jóhönnu Sævarsdóttur. Í gegnum þær kynnist Tom hversu viðkvæm framtíð byggðarlagsins er og hve umhugað íbúunum er að áfram verði þar byggð.

Hann lítur líka við hjá Ólöfu Jóhannsdóttur á Eyri, sem orðin er níræð, sem gefur belgísku sjónvarpsmönnunum ullarpeysu sem hún hefur prjónað sjálf.

Fékk nóg af Reykjavík

Ferðinni lýkur svo á ferð út á Dalatanga þar sem mæðgurnar Marsibil Erlendsdóttir og Aðalheiður Heiðarsdóttir búa. „Ef ég sakna einhvers get ég alltaf hringt,“ svarar Marsibil spurði að hvort henni þyki ekki einmanalegt að vera þar.

„Ég bjó í Reykjavík en ég fékk nóg af því. Staðurinn er í blóðinu, ég sakna þess alltaf að vera hér,“ svarar Aðalheiður sem er harðákveðin í að búa á Dalatanga.

Ferðaþættirnir Reizen Weas njóta mikilla vinsælda í Belgíu en þetta er fjórða þáttaröðin og er hún tileinkuð Evrópu. Umsjónarmaðurinn Tom Waes hefur unnið til alþjóðlegra verðlauna fyrir þættina en í þeim hefur hann heimsótt lönd eða landssvæði sem fara alla jafna framhjá ferðamönnum vegna ófriðar eða náttúruógna.

Þátturinn var sendur út á stöðinni Één sem tilheyrir ríkissjónvarpi Flæmingjalands, VRT. Áætlað er að 1,5 milljón manna hafi séð þáttinn um Mjóafjörð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar