Orkumálinn 2024

Baráttunni gegn fordómum gegn hinsegin fólki lýkur aldrei

Félagið Hinsegin Austurland gekkst í lok júlí fyrir fyrstu Regnbogahátíð Austurlands með viðburðum á Egilsstöðum, Borgarfirði, Seyðisfirði og Fáskrúðsfirði. Það var stofnað fyrir þremur árum til að gæta hagsmuna samkynhneigðra, tvíkynhneigðra, transfólks, intersex og allra annarra einstaklinga sem skilgreina sig hinsegin. Fræðslustarf er þar í forgrunni.

„Meginhlutverk okkar er að gera okkur sýnileg og reyna að hafa eitthvað í gangi innan félagsins. Stjórnin fundar í hverri einustu viku og við reynum alltaf að hafa einhverja viðburði. Reglulega leita félög og fyrirtæki og skólar til okkar varðandi fræðsluerindi og við tökum það að okkur með ánægju.

Fyrst og fremst snýr þetta að sýnileikanum og sérstaklega þetta sumarið hefur gengið vel að gera hinsegin fólk sýnilegt,“ segir Tara Ösp Tjörvadóttir, formaður félagsins í viðtali í Austurglugga vikunnar.

Hún segist hafa reynslu af því hversu miklu máli slíkur stuðningur skiptir í fámennum byggðum. „Það skiptir miklu máli í fámennum byggðum eins og eru hér fyrir austan að vita af öðrum í sömu stöðu sem hægt er að leita til og/ eða njóta með samveru og félagslífi,“ segir Tara

Jódís Skúladóttir, fyrsti formaður félagsins og núverandi þingmaður Norðausturkjördæmis, segir ljóst að stöðugt þurfi að standa í baráttu fyrir réttindum hinsegin fólks.

„Því miður eftir að málefni og raddir hinsegin fólks hafi borið hátt um margra ára skeið þá breyttist eitthvað fyrir fimm til tíu árum síðan. Nú eru öfgaraddir farnar að heyrast mun hærra en áður var og sérstaklega er þetta áberandi á samfélagsmiðlum.

Þar slengir fólk gjarnan einhverju fram undir dulnefni sem það þyrði aldrei að segja beint við hinsegin persónu. Það eru sannarlega dæmi um þetta hér á Austurlandi en þetta virðist eiga sér stað mjög víða undanfarin ár. Gegn því þarf að berjast.“

Lengri útgáfa viðtalsins birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.