„Austurland er gamla Ísland“

„Þó svo við höfum alltaf verið með erlenda ferðamenn í bland, þá eru langflestir okkar kúnna Íslendingar og eru enn. Við reynum að sérhæfa okkur í Austurlandi,“ segir Díana Mjöll Sveinsdóttir er framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Tanna Travel á Eskifirði, en hún var í forsíðuviðtali síðasta Austurglugga.


Díana Mjöll segir að tala megi um árið 2007 sem vendipunkt í ferðaþjónustu hjá Tanna Travel. „Það ár tókum við á móti fyrstu skemmtiferðaskipunum, en það er okkar „massatúrismi“ yfir sumartímann. Þau voru ekki mörg til að byrja með, en engu að síður mikil eldskírn. Okkur hefur tekist vel til og í sumar munum við þjónusta 70 skip sem koma til hafnar á Djúpavogi, Eskifirði og Seyðisfirði.

Segja má að það hafi verið hægur og stígandi uppgangur frá þessum tíma, við höfum farið reglulega á ferðasýningar og þannig komið okkur á framfæri. Í kringum 2012 vorum við farin að átta okkur á því að rútuferðir voru ekki endilega það sem ferðafólk var að sækjast eftir, en það var í meira mæli farið að ferðast á bílaleigubílum um landið. Eftir mikla yfirlegu og hugmyndavinnu varð til vörumerkið og vöruþróunarklasinn Meet the Locals sem gengur út á að ferðamaðurinn hitti heimamanninn. Það verkefni hefur vakið mikla athygli og hefur stækkað jafnt og þétt.“

Díana Mjöll segist sannfærð um að Austurland sé staður sem eigi eftir að sækja í sig veðrið sem ferðamannastaður. „Ísland er dýrt, við erum langt frá Reykjavík og ferðafólk kemur því síður austur. Ég hef þó fulla trú á því að Austurland muni verða áfangastaður sem ferðafólk kemur gagngert til landsins til að heimsækja, hvort sem við náum beinu flugi eða ekki. Þetta tekur tíma. Búið er að vinna mikla og markvissa vinnu í ferðaþjónustutengdum málum hér fyrir austan síðastliðin ár og við erum strax farin að finna aukningu. Austurland er gamla Ísland, eins og það var fyrir 20-30 árum síðan. Hér er enn hægt að fara á staði þar sem enginn ferðamaður er. Héðan er stutt í allar áttir; í fjöll, firði og upp á hálendi. Hér er ofsalega margt hægt að gera og þegar búið er að setja það saman í einn pakka er það vara sem ferðamenn koma til með að kaupa.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar