Orkumálinn 2024

Austfirskt blúsband spilar á Ólafsvöku í Færeyjum

„Við hlökkum gríðarlega mikið til þess að fara út og spila fyrir frændur okkar í Færeyjum,“ segir Jóhanna Seljan, söngkona og forsprakki austfirsku sveitarinnar The Borrowed brass blues band, sem er á leið í tónleikaferðalag til Færeyja á Ólafsvöku helgina 27.-29. júlí.

  

The Borrowed brass blues band var stofnað vorið 2016 þegar Jóhönnu bauðst að syngja á Blúshátíð Stöðvarfjarðar. Fyrir það verkefni fékk hún til liðs við sig trommuleikarann Hinrik Þór Oliversson, bassaleikarann Jón Hafliða Sigurjónsson og gítarleikarann Friðrik Jónsson.

„Við settum saman níu laga prógramm og komum fram á blúshátíðinni. Okkur þótti það svo skemmtilegt og hressandi að við ákváðum að halda áfram að spila saman. Þrátt fyrir að vera sátt við uppstillingu bandsins blundaði í okkur þrá til finna hljómborðsleikara, sem liggja aldeilis ekki á lausu. Heilladísirnar voru okkur hliðhollar í fyrra þegar við lönduðum happafengnum Kristni Harðarsyni en hann er gríðarlega góður Hammondleikari og smellpassaði í bandið,“ segir Jóhanna.

Vinna að frumsömdu efni
Sveitin verður með þrenna tónleika í Færeyjum. „Við spilum á litlum tónleikum í plötubúðinni Tutl á föstudeginum og verðum á Kaffi Kaspar um kvöldið. Á laugardaginn spilum við svo utandyra í Perlutúninu niðri í bæ.


Þrátt fyrir að vera blúsband í grunninn þá er prógrammið okkar mjög fjölbreytt, bæði íslenskt og erlent. Við höfum undanfarið spilað töluvert af gamla rokkinu, til dæmis Deep Purple, Uriah Heep og Led Zeppelin. En fyrir utan það að spila á tónleikum og taka þátt í Ólafsvökunni stefnum við á að nýta tímann vel og byrja að vinna að nýju efni sem verður þá mögulega innblásið af Færeyjum,“ segir Jóhanna.

Austfirsk tónlistarinnrás í Færeyjum
Aðspurð að því hvort það sé algengt að austfirskar sveitir séu að spila í Færeyjum segir Jóhanna; „Ég veit ekki til þess að það hafi verið í miklu magni hingað til. Þó fóru Fjarðadætur utan í fyrra og Guðmundur Gíslason, ásamt bandinu Coney Island Babies er á leið til Þórshafnar í ágúst að spila á Summar Festivalinum, þannig að segja má að það sé nokkurs konar austfirsk innrás þetta sumarið í Færeyjum. Hljómsveitin Týr frá Færeyjum spilaði svo á Eistnaflugi um síðustu helgi þannig að þetta er vonandi upphafið af auknum samskiptum og tónleikahaldi milli landanna.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.