Austfirskir prestar sýna hæfileika sína í jóladagatali

Prestarnir á Austurlandi hafa sýnt á sér óvæntar og fjölbreyttar hliðar í jóladagatali Austurlandsprófastsdæmis. Prófastur segir dagatalið hugsað til að næra sálina á tímum þar sem samkomubann takmarkar helgihald.

„Aðventan og jólin eru vanalega okkar stóri tími en aðstæður nú eru allt aðrar en venjulegar því við megum ekki messa.

Við búum hins vegar að því að vera með mjög hugmyndaríka presta hér í prófastsdæminu og þeir fengu þessa hugmynd að vera með þetta dagatal með þessum litlu molum,“ segir Sigríður Rún Tryggvadóttir, prófastur í Austurlandsprófastsdæmi.

Á hverjum degi frá 1. desember og fram til jóla birtast stutt myndskeið á vef prófastsdæmisins, www.austurkirkjan.is undir formerkjum jóladagatals. Myndskeiðin sögur, bænir og tónlist frá fleirum en prestunum. Sem dæmi má nefna myndskeið dagsins sem er frá Hofskirkju þar sem sr. Þuríður Björg Wiium Árnadóttir leikur á þverflautu við undirleik.

„Þetta eru litlir molar sem við hugsum sem næringu fyrir sálina. Þess desember er öðruvísi því flest sem mælt er með að við gerum til að byggja okkur upp andlega er ekki í boði. Það gefur okkur hins vegar tækifæri til að leita inn á við.“

Þá hefur jóladagatalið sitt einkennislag, Jólastjörnuna eftir Sigríði Laufeyju Sigurjónsdóttur. „Hún samdi það 13 ára þegar hún var við nám á Eiðum. Sigurður Óskar Pálsson, skólastjóri, heyrði lagið og daginn eftir að hann heyrði hana spila það í fyrsta sinn á gítarinn færði hann henni textann.

Barnakór Hjaltastaðakirkju söng lagið við hennar undirleik á aðventustund fyrsta sunnudag í aðventu nú í ár. Okkur fannst lagið frábært og tilvalið að nota það með jóladagatalinu,“ segir Sigríður Rún.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.