Orkumálinn 2024

Austfirskir matreiðslumenn vöktu athygli í Bandaríkjunum

Matreiðslumenn af veitingastaðnum Monkeys í Reykjavík og Nielsen á Egilsstöðum leiða saman hesta sína eystra um helgina. Hópur frá stöðunum fór síðasta haust og eldaði í Bandaríkjunum. Heimsóknin vakti slíka athygli að sendinefnd þaðan er væntanleg til Austurlands í sumar.

„Ég fór út til Bandaríkjanna í október með Kristvin Þór Gautasyni, kokki af Nielsen, Úlfari Darra Þórssyni, kokkanema á Nielsen og Snorra Grétari Sigfússyni frá Hallormsstað en hann er yfirkokkur á Monkeys.

Við vorum gestakokkar og gerðum tvo kvöldverði í bænum Astoria í Oregon-fylki í Bandaríkjunum. Hugmyndin var að fá kokka frá Íslandi til að elda hráefni úr nágrenni Astoria með íslensku eða skandinavísku tvisti,“ segir Kári Þorsteinsson, eigandi Nielsen restaurant.

„Sá sem stóð að baki viðburðinum heitir Chris Holen og hann reynir eftir fremsta megni að vera með svona viðburði í litla 10 þúsund manna bænum sínum. Hann kynntist Snorra Grétari fyrir rúmum áratug. Snorri Grétar rak þá veitingastað á Akureyri þar sem hann eldaði mikið úr íslensku hráefni og Chris leist vel á það sem hann var að gera. Þeir fóru að tala saman og tengdust,“ segir Kári sem áður hefur farið út til Astoria með Snorra Grétari, en þeir voru þá báðir að vinna hjá Kol á Skólavörðustíg í Reykjavík.

Fjölbreytt hráefni af svæðinu


Kári segir að þeir hafi fengið gott hráefni í hendurnar í Astoria. Bærinn er nærri ós Columbia-fljótsins og skógur allt í kring. „Það eru fyrirtæki sem sækja sveppi og villtar jurtir í skóginn. Við fengum humarsveppi, kjötmikla sveppi sem eru gulrauðir eins og eldaður humar. Við steiktum þá upp úr smjör og settum á grillað brauð.

Við fengum svartan þorsk, sem er miklu feitari en sá íslenski og nær hvítum túnfiski. Við hrámaneruðum hann og höfðum með kolsvartan rabarbara sem ég eldaði hér heima í 40 daga og smyglaði svo með mér út.

Við vorum kynntir fyrir litlu fyrirtæki sem ræktar söl í körum niður við sjóinn. Þau eru mjög góð og við höfðum þau með hörpuskel. Síðan fengum við dádýr. Við sáum eitt slíkt í bænum. Það er ekki óalgengt að þau trítli þar um göturnar,“ segir Kári.


Sendinefnd austur í sumar


Kári segir mikils virði fyrir matreiðslumenn að komast í svona ferðir til að efla tengsl og þekkingu. Hann segir móttökurnar hafa verið góðar og fullsetið bæði kvöldin. Eins hafi verið gaman að sjá uppbygginu í Astoria út frá ferðamennsku og matvælavinnslu.

„Fyrir 15 árum keyrði fólk bara í gegnum bæinn þannig að stjórnvöld fóru að velta fyrir sér hvað hægt væri að gera til að fá fólk til að stoppa. Þau hafa hjálpað fólki að stofna lítil fyrirtæki. Þarna eru til að mynda fimm brugghús og eitt þeirra er orðið stórt í Bandaríkjunum. Farið var að auglýsa svæðið upp fyrir bíómyndir sem þar hafa verið teknar upp, til dæmis Goonies. Eins er mikið gert út á Stórfót. Við sáum brúður og myndir af honum út um allt. Það var farið með okkur um allt og áhugavert að sjá samstöðuna þar sem til dæmis brugghúsin hjálpast öll að.“

Afraksturinn er meðal annars sá að hópur frá Astoria, undir forustu Chris, er væntanlegur til Egilsstaða í sumar. „Hann var með hugmynd um matarferð til Íslands. Sú hugmynd þróaðist eftir sem við eyddum meiri tíma með honum ytra og hann sýndi okkur samfélagið, sem okkur fannst eiga margt sameiginlegt með Austurlandi. Okkur datt því í hug að þetta gætu verið systrasvæði.

Hugmyndin hefur þróast á þann veg að Chris er búinn að tala við helstu ráðamenn á svæðinu, bæði frá bænum og fyrirtækjum og margir þeirra ætla að koma með og athuga hvað hægt sé að læra af okkur. Þau ætla að fljúga til Reykjavíkur og koma við á Akureyri áður en þau koma til Austurlands og dvelja í 2-3 nætur, borða og hitta fólk. Við erum nú að vinna að því með Austurbrú að koma þessum hópi saman við okkar besta fólk.“

Suður-amerísk og japönsk blanda


En fyrst er það heimsókn Monkeys í Egilsstaði á föstudag og laugardag. Þéttsetið er en nokkur sæti þó enn laus. „Hugmyndin fæddist úti. Monkeys opnaði fyrir tveimur árum og hefur notið gríðarlegra vinsælda síðan. Hann sérhæfir sig í samblandi af japanskri og perúskri matreiðslu, sem er annað hráefni en það íslenska. Ég vann aðeins hjá Monkeys á Covid-tímanum og fannst mjög spennandi að prófa nýja hluti.

Snorri kemur austur ásamt aðstoðaryfirkokki og nema. Þeir verða hér með matseðil sem Snorri bjó til og inniheldur nokkra af þeirra vinsælustu réttum, allt frá djúpsteiktum plantain-banönum og grillaðri vatnsmelónu yfir í nautalund. Síðan verður Monkeys mandarínan, sem er mjög vinsæl, í eftirrétt og nokkrir af kokteilunum þeirra," segir Kári. Mandarínan er afurð Ólafar Ólafsdóttur, eftirréttameistara, sem heimsótti Nielsen í sumar.

Myndir: Kári Þorsteinsson og Chris Holen/Nekst Events

309863542 483391843807528 8876021534345243245 N
327667807 1385949755552158 6724522800228550525 N
311155117 556108236518941 8462641684570121118 N
312361642 672567230840480 8571374430284442206 N
312550535 483391827140863 3604079516138633378 N
312662798 483391847140861 8814722133627099167 N
312846184 484237490389630 4958191894001191895 N
309234482 537106958419069 456190911801981814 N
309390089 537107098419055 158420186094809858 N
328326696 584284523586252 2612665380506440176 N
329354578 903223504140948 1330698584948265530 N
Adalmynd

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.