Austfirðingar senda níu stóra poka af barnafötum til Marokkó

Níu fullir svartir ruslapokar með barnafötum verða í byrjun september sendir frá Fáskrúðsfirði til Atlasfjalla í Marokkó. Hugmyndin um fatasöfnunina var fyrst sú að nýta ferð og tómar ferðatöskur til að taka með nokkrar flíkur en segja má að hún sé sprungin.

„Maðurinn minn er frá Marokkó og við reynum að fara einu sinni á ári til að hitta fjölskylduna hans. Hugmyndin var fyrst sú að taka ekki með neinn farangur heldur fylla ferðatöskurnar okkar af barnafötum.

Við ætluðum í Barnaloppuna en ákváðum að spyrja vini og vandamenn. Við áttum von á svörum frá tíu en á einum sólarhring höfðu 60 samband. Þá gerðum við okkur grein fyrir hvað við værum búin að koma okkur út í en ákváðum um leið að gera þetta fyrir alvöru.“

Þannig hefst frásögn Katrínar Ottesen sem ásamt manni sínum Mohammed „Hamada“ Hibbi hefur núna safnað fötum bæði á höfuðborgarsvæðinu og Austfjörðum sem undir þarf tvö eða þrjú vörubretti til að flytja á áfangastað.

Allir tilbúnir að hjálpa á Fáskrúðsfirði

Þau hafa í sumar búið á Fáskrúðsfirði því Katrín hefur unnið hjá Fjarðabyggð en Hamad á Egilsstöðum. Þau vildu athuga hvort hinir nýju nágrannar þeirra hefðu áhuga á að vera með.

„Mér datt í hug að spyrja á Facebook-hópum Fáskrúðsfirðinga og yfir 20 manns hafa látið okkur hafa föt. Þar má finna margar fallegar og hlýjar flíkur.

Við erum hér sem aðkomumanneskjur í sumar, ný í samfélaginu og settum inn litla færslu. Við bjuggumst ekki við neinu en það eru allir tilbúnir að hjálpa. Við höfum náð að safna jafn miklu á Fáskrúðsfirði og meðal vina og vandamanna á höfuðborgarsvæðinu.

Við hringdum í tengdamömmu til að sýna henni hvað við hefðum safnað og hún fór að hágráta þegar hún sá hvað það var mikið. Hún átti ekki von á þessu.“

Ákvað ungur að gefa föt í Atlasfjöll

Fötunum verður dreift meðal fólks sem býr uppi í Atlasfjöllum. Íbúar svæðisins búa margir við fátækt og hafa orðið illa úti þar sem þeirra aðaltekjulind, ferðamennska, hefur rýrnað verulega eftir að tvær ungar norrænar konur voru myrtar á svæðinu í desember í fyrra. Þrír karlmenn voru í síðasta mánuði dæmdir fyrir verknaðinn. „Fólkið þarna er fátækt og fær enga aðstoð frá ríkinu,“ útskýrir Katrín.

Hamada hefur tengsl við svæðið. Hann er ættaður þaðan og ólst upp við að fylgja móður sinni á svæðið sem drengur þar sem hún dreifði fötum. „Hann ákvað þegar hann var lítill að gefa þangað föt. Hann áttaði sig á hvað hann væri heppinn þegar hann sá börn sem voru ekki í skóm ganga 7 km á dag til að komast í skóla.“

Snúið að koma fötunum á áfangastað

Nokkuð mál er að koma fötunum á áfangastað. Polo-bifreið Katrínar og Hamada rúmaði ekki fötin þannig að faðir hennar kom á sendibíl til að sækja þau. Icelandair Cargo mun styrkja þau um flutning frá Íslandi til Lundúna en um 200.000 krónur kostar að senda fötin áfram þaðan til Casablanca. Katrín hefur átt í samskiptum við austfirsk fyrirtæki um að styrkja þann flutning. „Ég hef fundið fyrir velvilja. Okkur langar til að sýna hvað það er fallegt samfélag hér fyrir austan.“

Í Casablanca tekur fjölskylda Hamada við fötunum og flytur þau til Marrakesh þar sem þau Katrín bætast í hópinn og munu eyða fyrstu dögum septembermánaðar í að dreifa þeim. Meðal annars verður farið með föt á sjúkrahús sem þjónar nokkrum þorpum í Atlasfjöllunum. „Við erum að finna út úr hvernig best sé að gera þetta,“ segir hún.

Katrín segir möguleika á að sambandið milli Fáskrúðsfjarðar og barnanna í Atlas-fjöllum sé komið til að vera. „Ég ætla að hitta Ólöfu [Lindu Sigurðardóttir] handavinnukennara hér á Fáskrúðsfirði og hún ætlar að láta okkur fá föt, húfur og teppi sem nemendur hennar hafa saumað í tíma. Vonandi getum við gert þetta að verkefni til framtíðar.“

Fáskrúðsfirðingar fá líka að frétta af því hvernig tekið verður við fatagjöfum þeirra. „Við höfum tekið myndbönd í söfnuninni og gerum það áfram þannig við getum sýnt hvernig gjöf sem þessi getur breytt lífi annarrar manneskju.“

Hamada og Katrín á ferð með föt úr söfnuninni. Mynd: Úr einkasafni


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.