Austfirðingar atkvæðamiklir á Handverkshátíðinni

Ferð á Handverkshátíðina á Hrafnagili er fastur liður fyrir marga Austfirðinga í ágúst, bæði til að sýna verk sín og skoða það sem í boði er. Við bætist að annar framkvæmdastjóra hátíðarinnar í ár er að austan.

„Við erum ráðnar til þriggja ára til að halda utan um hátíðina og útlit hennar. Við stefnum á að þróa hátíðina á næstu árum. Hún verður með hefðbundnu sniði í ár og svo skoðum við framhaldið,“ segir Heiðdís Halla Bjarnadóttir.

Heiðdís Halla rekur grafísku hönnunarstofuna Dúó ásamt Kristínu Önnu Kristjánsdóttur og í samvinnu við félagasamtök í Eyjafjarðarsveit halda þær utan um Handverkshátíðina, sem opnaði klukkan ellefu í morgun. Yfir 100 sýnendur eru á hátíðinni sem stendur til sunnudags.

Austfirskt handverksfólk hefur gjarnan lagt leið sína á hátíðina. Af Austfirðingum sem eru á hátíðinni í ár má nefna Ethic frá Neskaupstað, Sköpunarmiðstöðina á Stöðvarfirði og Ingu Rós Unnarsdóttur undir merkinu Frá Héraði en hún hefur getið sér góðs orðs fyrir að lita garn. Heiðdís Halla segir að slík handiðn sé nokkuð áberandi á sýningunni í ár.

Hátíðin er nú haldin í 27unda sinn og dregur að sér fjölda gesta. „Hún ber upp á sömu helgi og Fiskidaginn á Dalvík þannig það er margt fólk á svæðinu. Um 6000 manns borga sig inn á hátíðina og sumir þeirra kom aftur og aftur yfir helgina.“

Markmið hátíðarinnar er að sýna gestum grósku og fagmennsku í íslensku handverki um leið og sýningin veitir innblástur og kveikir áhuga á hefðbundnum handverkshefðum. Meðal þess sem líta má á hátíðinni í ár er heimasmíðaður lírukassi. Um 30 nýir sýnendur eru á hátíðinni í bland við fasta liði.

Heiðursgestur hátíðarinnar í ár er Hreinn Halldórsson, alþýðulistamaður frá Akureyri sem skapar tréskúlptúra/styttur. Nokkrar nýjar styttur sem hann hefur ekki sýnt áður munu prýða útisvæði hátíðarinnar.

Fulltrúar Sköpunarmiðstöðvarinnar á Stöðvarfirði á Handverkshátíðinni í morgun. Mynd: Heiðdís Halla Bjarnadóttir


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.