Átti stórafmæli í dráttarvél frá Höfn að Egilsstöðum

„Þetta var ekki þægilegasti ferðamátinn reyndar en allt gekk þetta vel og ég hafði bara gaman af þessu litla ævintýri,“ segir Sævar Kristinn Jónsson, bóndi að Miðskeri í Hornafirði.

Það var úr vöndu að ráða fyrir Sævar Kristinn fyrir skemmstu þegar dráttarvél hans þurfti yfirhalningu og næsti þjónustuaðili sem gat fært það til betri vegar var á Egilsstöðum. Kostnaður við að flytja stóra dráttarvél þessa leiðina er afar drjúgur og afréð Sævar eftir umhugsun að aka vélinni alla leiðina þar sem hún var þó vel ökuhæf þrátt fyrir allt. Leiðin sú er 182 kílómetrar í heildina.

„Ég var búinn að ákveða áður að vera ekki heimavið á afmælinu mínu svo það lá beinast við að nota þann dag til ferðalagsins. Það tók mig sjö og hálfa klukkustund að aka alla leiðina en ég reyndar áði á Djúpavogi í millitíðinni. Ég lenti ekki í neinum vandræðum á leiðinni en allt hossið fór dálítið með líkamann. Ekki hvað síst á veginum yfir Öxi sem var langversti kaflinn á leiðinni og vegurinn þar mjög þröngur fyrir stóra dráttarvél. Þar þurfti ég að hafa mig allan við aksturinn en var svo heppinn að umferðin var hvað minnst þar.“

Afmælið sem Sævar minnist á var stórafmæli en hann fagnaði á þessum tíma 80 ára afmælinu. Aðspurður um hvort hann hafi haldið sérstaklega upp á daginn á leiðinni segir hann svo ekki vera en hann settist niður með fjölskyldunni að ferð lokinni og gerði sér glaðan dag.

Dráttarvél hans bíður enn á Egilsstöðum eftir að komast í skoðun en Sævar er vongóður um að þurfa ekki að aka vélinni til baka þegar þar að kemur. Mun auðveldara og ódýrara sé að fá flutning frá Egilsstöðum að Höfn en hina leiðina.

„Ég sé sannarlega ekki eftir þessu ferðalagi og alls ekki versta leiðin til að halda upp á afmælið sitt. Hver veit nema ég haldi þessum sið áfram á næsta stórafmæli,“ segir Sævar hlæjandi.

Mynd: Sjálfur þurfti Sævar að hafa sig allan við að keyra og tók því engar myndir á ferð sinni. Dóttir hans Þórdís Sævarsdóttir náði þó einni af kappanum á Djúpavogi á heimleiðinni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.